136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:50]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vitaskuld alveg rétt að ég hef ítrekað sagt og ég stend við það, enda hefur ekkert komið fram sem fær mig ofan af þeirri skoðun, að hugmyndafræðin á bak við það hvernig við héldum utan um fjármálakerfi okkar, og þá á ég auðvitað ekki bara við um Seðlabankann heldur í miklu víðara samhengi, var röng. Við byggðum upp fjármálakerfi þar sem viðskiptabankarnir gátu nánast óheft vaxið og safnað að sér skuldbindingum sem á endanum gátu fallið og féllu á íslenska skattborgara. Það var röng hugmyndafræði.

Sú staðreynd að peningastefnan var um margt misráðin er einungis lítill hluti af vandamálinu. En það breytir því ekki að með nýrri forustu Seðlabankans verður peningastefnunni væntanlega breytt. Það á hins vegar ekki að gefa nýrri forustu Seðlabankans einhver fyrirmæli um það í lagatexta hvernig hún á að breyta þessari peningastefnu. Við treystum því að með faglegum vinnubrögðum, nýrri umgjörð (Forseti hringir.) og nýju fólki verði það gert.