136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:51]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að hæstv. viðskiptaráðherra tali hér um fagleg vinnubrögð og þá langar mig til þess að spyrja hann út í hvernig að samningu þessa frumvarps var staðið, sérstaklega vegna þess að hæstv. viðskiptaráðherra er fenginn hingað, sunnan af melum, úr háskólanum, til þess að vera faglegur ráðherra í þessari minnihlutastjórn.

Hæstv. ráðherra sagðist ekki skilja hvaða tilgangi það þjónaði að upplýst væri til hvaða sérfræðinga hefði verið leitað við samningu þessa frumvarps. Það er nú einu sinni þannig hér í þinginu, og ég geri ráð fyrir að hæstv. viðskiptaráðherra viti það, að þegar þingið vinnur að frumvörpum kallar það til sérfræðinga, þar á meðal þá sem samið hafa frumvörp þau sem lögð eru til. (Gripið fram í.) Ég hlýt að spyrja hinn faglega ráðherra hvort hann telji að þau vinnubrögð sem ríkisstjórn sú sem hann situr í teljist vera boðleg. Finnst honum eðlilegt að við þingmenn sem eigum að fjalla um þetta frumvarp (Forseti hringir.) séum ekki upplýstir um það (Forseti hringir.) hverjir sömdu það?