136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir ræðuna og óska honum til hamingju með bæði embættið og jómfrúrræðuna, ræðan var mjög málefnaleg.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um eftirfarandi: Nú er getið um það í 3. gr. frumvarpsins hvernig Seðlabankinn eigi að starfa, en stefnunni er ekki breytt neitt og spurning mín er sú, hvers lags maður velst í þetta bankastjóraembætti? Segjum að hann vilji bara halda núverandi stefnu áfram óbreyttri, hvernig getum við hindrað það? Það er ekki orð um það í lagatextanum. Hann verður væntanlega pólitískt ráðinn af því að það er forsætisráðherra sem ræður hann.

Svo vil ég spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort hann þekki hugmyndir erlendis frá um hvað gert er til þess að láta menn sem gera mistök sæta ábyrgð. Hvernig er það erlendis, t.d. ef einhver seðlabankastjóri gerir mistök þannig að kerfið hrynur, (Forseti hringir.) hvernig leysa menn það í raun?