136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[17:18]
Horfa

Sigurður Pétursson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér hefur verið til umræðu í dag frumvarp til laga um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands. Tilgangurinn með frumvarpinu er auðvitað öllum ljós, þ.e. að breyta skipulagi bankans og skipta um yfirstjórn hans. Markmiðið er líka nokkuð skýrt, þ.e. að endurreisa traust og trúnað yfirstjórnar fjármála á Íslandi, bæði innan lands gagnvart þjóðinni og ekki síður gagnvart umheiminum.

Segja má að þetta frumvarp komi nú fram seint og um síðir. Það eru fjórir mánuðir síðan að bankakerfið á Íslandi hrundi. Það eru fjórir mánuðir síðan allt fjármálakerfi landsins féll til grunna á nokkrum dögum. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðunni í dag þar sem loksins er komið fram frumvarp sem tekur á því máli að skipta um yfirstjórn Seðlabanka Íslands sem talað hefur verið um í þessa fjóra mánuði sem algera nauðsyn og til þess að byrja upp á nýtt.

Mjög fróðlegt hefur verið að hlýða á þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mál af mörgum ástæðum. Ekki fer hjá því að það hvarfli að manni að eitthvað sé til í þeirri umræðu sem farið hefur fram síðustu vikur og mánuði um gjá eða bil milli þings og þjóðar. Í fjóra mánuði hefur verið spurt hver beri ábyrgð á því sem gerðist í fjármálakerfi landsins og ekki síður hver ætli að axla ábyrgð á því hvernig fór. Svörin hafa ekki verið mörg hingað til, svörin sem þjóðin hefur fengið hafa yfirleitt verið þau sömu, þ.e. ekki benda á mig, það var einhver annar.

En nú hefur það gerst að almenningur í landinu hefur ekki látið bjóða sér slíka afgreiðslu og maður gæti jafnvel sagt: Aldrei slíku vant. Hingað til hefur þjóðin látið sér nægja að þusa og rausa í svolítinn tíma þegar minni háttar hneyksli hafa komið upp, t.d. við mannaráðningar vina og vandamanna, t.d. við óeðlilega fyrirgreiðslu eða sóun á almannafé eða þegar mistök og vanhæfni hafa gerst berleg í stjórnsýslunni. Við þekkjum auðvitað öll mörg dæmi um þetta en sjaldan eða aldrei hafa stjórnmálamenn eða embættismenn verið dregnir til ábyrgðar í slíkum málum. Reglan hefur verið að samtrygging stjórnmálaflokkanna hefur séð um að þæfa málið, dreifa athyglinni, verja kerfið og verja kerfiskallana. Við höfum kannski svolítið orðið vör við það hér í dag að sú umræða stendur enn.

Já, kerfið sér um sína. Og hvaða kerfi er þetta sem mörgum er svo umhugað um að verja? Íslenskt stjórnmálakerfi sem tveir flokkar bera kannski mesta ábyrgð á frá því að við stofnuðum lýðveldi hér árið 1944. Tveir stjórnmálaflokkar hafa verið í forsvari fyrir næstum hverri einustu ríkisstjórn sem setið hefur í þessi rúmlega 60 ár sem liðin eru síðan lýðveldið var stofnað. Við þekkjum hvaða flokkar þetta eru, þeir hafa oftar en ekki verið saman tveir í ríkisstjórn en það hefur þó komið fyrir að þeir hafi tekið aðra flokka með sér í samstarf. Og þjóðin hlýtur að þekkja þessa flokka því að þeir hafa lengst af haft nokkuð mikið fylgi. Það eru einmitt sömu flokkarnir og byggðu upp, bjuggu til og treystu í sessi hið illræmda kvótakerfi í sjávarútvegi sem vaxið hefur hér eins og æxli á þjóðinni síðustu 20 árin og á líka sinn þátt í því hvernig komið er fyrir okkur sem þjóð nú um stundir.

En aftur að þeirri staðreynd að fjármálakerfi landsins hrundi á nokkrum örlagaríkum dögum í október. Talað hefur verið um að það hafi trúlega verið stærsta áfall sem þjóðin hefur orðið fyrir á seinni árum. Viðbrögðin voru þau að fyrst sló auðvitað óhug á fólk, spurningar risu en svörin voru engin. Stjórnvöld gátu ekki gefið svör og á hinu háa Alþingi var líka fátt um svör. En þeir sem báru ábyrgð á fjármálastjórn landsins í Seðlabanka Íslands höfðu svör, þeir komu fram í fjölmiðlum, þeir gáfu sjálfum sér hreint sakavottorð í öllu því stóra máli, þeir bentu í allar áttir og sögðu eins og sagt hefur verið hingað til: Það voru hinir.

Það hefur komið fram í umræðunni í dag að ferill seðlabankastjórnar Íslands á síðustu 10 árum er kannski ekki alveg flekklaus. Þarf ég ekki að endurtaka það. En þar eru mörg dæmi, trúi ég, um aðgerðir eða kannski öllu heldur aðgerðaleysi sem eru ekkert annað en afglöp eða vanræksla. Svo eru menn hissa á því að það séu uppi kröfur í samfélaginu um að einhverjir segi af sér. En það var einmitt það sem ekki gerðist. Enginn sagði af sér, enginn í Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu eða ríkisstjórninni, allir sátu eins og límdir við sína stóla. Jafnvel í bönkunum, þar sem allir bankarnir höfðu farið í þrot, störfuðu sömu stjórnendurnir meira og minna fyrst á eftir, stundum reyndar undir nýjum nöfnum, þ.e. starfsheitum, voru kallaðir ráðgjafar eða eitthvað slíkt. Það var ekki fyrr en fjölmiðlar vöktu athygli á slíkum málum að byrjað var að breyta til, taka upp ný vinnubrögð og jafnvel hreinsa til eins og einhvern nefndi hér áðan að einhverjir hefðu verið svo ósvífnir að fara fram á. Þó var ein kona í bankaráði Seðlabankans sem axlaði sína ábyrgð, stóð upp og sagði af sér. En hvað gerðist þá? Það var lítið látið með það, það var nánast farið með það eins og mannsmorð að það hefði gerst, það var nánast þaggað niður. (Gripið fram í: … í Samfylkingunni.) Það varð ekki mikil umræða um það mál, hvorki í fjölmiðlum né annars staðar.

Eins og oft hefur komið fram er langlundargeð okkar Íslendinga mikið. Það þekkjum við. Við erum yfirleitt seinþreytt til vandræða. Það getur auðvitað verið mikill kostur, það getur stundum sýnt ákveðið umburðarlyndi en það eru líka takmörk fyrir öllu. Það er kannski einmitt þess vegna, hversu sjaldan við reiðumst, hversu sjaldan okkur er nóg boðið, sem eitthvað lætur undan loksins þegar upp úr sýður. Og nú gerðist það að þjóðinni var nóg boðið. Krafan sem hafði kraumað í 100 daga og enginn hafði brugðist við varð háværari einn dag fyrir skömmu. Það var ekki að ástæðulausu, þá kom Alþingi saman, löggjafarsamkunda þjóðarinnar, eftir langt hlé um jól og áramót. Og í stað þess að ræða þau stórkostlegu vandamál sem voru uppi voru hér einhver allt önnur málefni til umræðu og á dagskrá. Sú ríkisstjórn sem þá sat hafði ekkert nýtt fram að færa fyrir Alþingi til að ræða og Alþingi sjálft hafði ekki manndóm til að taka málin upp sem brunnu á fólki hér fyrir utan.

Við þekkjum hvernig fór, það er nú talað um að það hafi orðið búsáhaldabylting. Búsáhaldabyltingin felldi ríkisstjórnina. Fyrst sagði viðskiptaráðherra af sér, þá vék yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins frá og nokkrum dögum síðar hrökklaðist ríkisstjórn Geirs H. Haardes frá völdum eins og við þekkjum. Þar með má segja að a.m.k. annar stjórnarflokkurinn hafi axlað sína ábyrgð. Hann sagði upp þessu samstarfi í ríkisstjórninni sem vonlaust var orðið. En hvað með hinn stjórnarflokkinn, hvað með þær umræður sem þar hafa orðið og þær umræður sem endurspeglast hér í dag frá fulltrúum þess flokks?

Það má nefnilega segja það sama um Samfylkinguna eins og þjóðina, hún er mjög seinþreytt til vandræða. Hún gaf Sjálfstæðisflokknum, samstarfsflokknum, ekki bara einn séns, tvo eða þrjá, heldur 20 eða 30 sénsa til að taka á málum. En Sjálfstæðisflokkurinn brást og það er kannski ekki að furða að Sjálfstæðisflokkurinn hafi brugðist. Sjálfstæðisflokkurinn er nefnilega kerfisflokkurinn með stórum staf, hann er þursinn sem ekki getur hreyft sig og á erfitt með að bregðast við. Hann heldur bara áfram að berja hausnum við steininn þegar allt er hrunið. Í því gjaldþroti hugmyndastefnu Sjálfstæðisflokksins sem nú er lokar hann sig inni í sínum eigin helli þar sem valdhroki, sjálfsréttlæting og uppgjöf eru staðreynd. Það er auðvitað stefna þess flokks sem lagði grunninn að fallinu og það hefur komið hér skýrt fram í dag. Það var hann sem lagði til loftið sem blásið var í blöðruna sem sprakk svo framan í okkur öll í október. Það var hann sem dældi út frjálshyggjufroðunni sem breiddist yfir þjóðfélagið, gegnsýrði atvinnuvegina og líf almennings í landinu. Og það er hann sem stendur eftir berstrípaður þegar harkalegir vindar komu og blésu froðunni í burtu. Þá stendur hann berskjaldaður og við getum sagt að aldrei hafi betur átt við þau orð sem komu fram í ævintýrinu fræga þegar barnið sagði: „Sjáðu mamma, hann er ekki í neinu.“

Já, það hefur sannarlega verið beðið lengi eftir þessu frumvarpi sem hér er komið fram um yfirstjórn Seðlabankans, að yfir Seðlabankann væri settur faglegur stjórnandi þar sem gerðar væru faglegar kröfur en ekki sendir þangað til stjórnar aldraðir stjórnmálamenn á leið í hinn helga stein. Og það er engin tilviljun, held ég, að það skuli vera ríkisstjórn undir forustu jafnaðarmanna sem kemur fram með þetta frumvarp og mun vonandi leiða það til lykta.

Tvennt hefur vakið nokkra athygli í dag, a.m.k. mína sem er nýliði hér. Í fyrsta lagi hefur tekið svolítið í hjartað að sjá að hér hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins komið hver eftir annan og tekið mjög nærri sér hugsanleg brot eða hugsanlega skerðingu á réttindum og starfskjörum opinberra starfsmanna. Það urðu náttúrlega margir hissa og ekki síst þegar kallað var eftir fulltingi formanns BSRB til þess að aðstoða þá sjálfstæðismenn í þeirri réttindabaráttu sem hann að sjálfsögðu gerði. En þetta var mjög undarlegt, það þurfti sem sagt það til að seðlabankastjórarnir þrír fengu bréf þar sem þess var óskað að þeir segðu af sér og þá rankaði allt í einu við eitthvað í hjarta sjálfstæðismanna þar sem þeir fóru að rifja upp réttindi og kjör opinberra starfsmanna og bera þau fyrir brjósti.

Það er gott ef sinnaskiptin í minni hlutanum, í stjórnarandstöðunni, leiða til þess að þeir endurskoði grundvallarsjónarmið sín. Það er gott.

Hitt sem hefur vakið nokkra athygli í þessari umræðu er einmitt þetta sama bréf sem hæstv. forsætisráðherra sendi seðlabankastjórunum þremur. Ég verð að segja eins og er að mér fannst þetta virkilega huggulegt og sætt bréf þar sem þessir ágætu herrar voru beðnir kurteislega um að segja af sér. Ég vil rifja hér upp í lokin orð sem féllu árið 1998, fyrir rúmum tíu árum. Þá sögðu þrír bankastjórar Landsbanka Íslands af sér eftir miklar umræður sem höfðu orðið í þjóðfélaginu um störf þeirra líkt og umræður sem orðið hafa núna. Þá sagði þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, þegar þeir höfðu (Forseti hringir.) sagt af sér, að það hefði verið alger nauðsyn að þeir segðu af sér til að skapa traust og frið um bankann. (Forseti hringir.) Höfum þessi orð í huga núna þegar þetta frumvarp er til umræðu, vonandi mun það benda til nýrra tíma að forsætisráðherra jafnaðarmanna hefur lagt þetta frumvarp fram, (Forseti hringir.) því að það mun leiða til betri framtíðar.