136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[17:34]
Horfa

Björn Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Í tilefni af þeim umræðum sem hafa orðið hér um Seðlabanka Íslands og starfsmenn hans vil ég, með leyfi forseta, hefja ræðu mína á því að lesa úr grein sem Hallgrímur Ólafsson, starfsmaður Seðlabankans og formaður starfsmannafélags Seðlabankans, ritaði í Morgunblaðið 4. febrúar.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Okkur starfsmönnum Seðlabankans hefur sviðið umræðan að undanförnu og erum þó ýmsu vön gegnum tíðina. Gegndarlaus áróður og sleggjudómar eru þvílíkir, að helst minnir á aðferðir skipulagðra öfgahópa. Fréttaflutningur hefur verið á einn veg. Eineltið beinist fyrst og fremst gagnvart formanni bankastjórnar, Davíð Oddssyni. Davíð sagði þetta og Davíð sagði hitt. Ekki hefur verið rifjað upp hver benti fyrstur manna á gegndarlausa græðgi sjálftökumanna á ofurlaunum, hver benti á hættuna á samþjöppun valds og eignarhalds auðmanna og hringa eða hver benti einna fyrstur á falska viðskiptavild meðal eigna stórra skráðra fyrirtækja. Gjarnan tala menn um að það þurfi að losna við bankastjórann eins og hann sitji hér einn, efnahagsvandinn sé hans verk og að hann standi í vegi fyrir framförum. Lítilsvirðingin gagnvart hinum bankastjórunum tveimur, sem báðir eru hagfræðimenntaðir og eiga langan farsælan starfsferil að baki í Seðlabankanum, er algjör.

Það skyldi þó ekki vera að Davíð sé höfuðóvinur ákveðinna auðmanna á Íslandi sem í rauninni hafa knésett efnahag landsins?

Virtir hagfræðingar telja að bankastjóri eigi skilyrðislaust að vera sprenglærður hagfræðingur. Þetta heitir fagleg hagsmunagæsla og hefur verið þekkt m.a. hjá læknastéttinni um áratugaskeið.

Því hefur einnig verið haldið fram að peningamálastefnan hafi haldið uppi fölsku gengi á krónunni sem endaði með skelfingu.

Ég er viss um að allflestir starfsmenn Seðlabankans eru mér sammála um að bankastjórarnir allir njóta trausts og virðingar innan bankans. Ekki hefur verið bent á nein afglöp né brot í starfi.

Fullyrt er að Már Guðmundsson verði ráðinn í starf seðlabankastjóra eftir skipulags- og lagabreytingar. Már er flestum hnútum kunnugur innan bankans þar sem hann var aðalhagfræðingur um árabil. Hann er virtur, vinsæll og þótti góður verkstjórnandi og félagi. Hitt ber hins vegar að hafa í huga að Már var einn af aðalhöfundum fyrrnefndrar peningamálastefnu. Hún kom ekki í hús með Davíð eins og kjölturakki.

Eflaust tekst hinni nýju ríkisstjórn að koma verkum sínum í framkvæmd enda hafa áðurnefnd öfl unnið sitt áróðursstríð. Þrír mikilhæfir dáindismenn verða settir af, hvað sem það kostar. En ég vil óska að sannleikurinn komi í ljós og jafnvel réttlætið sigri að lokum.

Vonandi linnir nú skemmdarverkum á eigum almennings. Vonandi hættir lýðurinn að ata Alþingishúsið hlandi og saur.“

Þetta segir formaður starfsmannafélags Seðlabankans í grein sem birtist í Morgunblaðinu 4. febrúar. Ég tel rétt að lesa þetta hér vegna þeirra orða sem hér hafa komið fram og vegna þess hvernig menn hafa talað til Seðlabankans og starfsfólks hans.

Í dag var einnig birt greinargerð eftir Ingimund Friðriksson seðlabankastjóra sem ber yfirskriftina „Aðdragandi bankahrunsins í október 2008“, erindi sem hann ætlaði að flytja á fundi í Finnlandi en hér stendur að hann hafi forfallast frá því starfi sínu. Þetta er birt hér og er öllum aðgengilegt og það hefði verið mjög æskilegt að hæstv. viðskiptaráðherra hefði kynnt sér þessa skýrslu áður en hann flutti hina dæmalausu ræðu sem hann flutti hér áðan um störf Seðlabankans. Það að viðskiptaráðherra komi hér og tali um að Seðlabankanum hafi öll sín ár mistekist ætlunarverk sitt og hlutverk minnir mig bara á eitt. Það minnir mig á það sem gerðist árið 1930 þegar þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Jónas Jónsson frá Hriflu, lagði fram frumvarp um fimmtardóm til að leggja af Hæstarétt af því að hann sætti sig ekki við það hvernig Hæstiréttur starfaði.

Ef hæstv. viðskiptaráðherra er þeirrar skoðunar, eins og virtist af ræðu hans, að Seðlabankinn sé gjörsamlega ónýt stofnun, af hverju leggur hann þá ekki hreinlega til að Seðlabankinn verði lagður af og kemur með frumvarp um það? Þá væri hægt að ræða hvað ætti að koma í staðinn. Ræða hæstv. viðskiptaráðherra var með þeim endemum að sjaldan hefur ráðherra talað með slíkum hætti um opinbera stofnun hér, hvað þá heldur hæstv. viðskiptaráðherra um Seðlabankann.

Það hefur einnig komið fram í fréttum í dag að hæstv. forsætisráðherra sætti sig ekki við það að Ásmundur Stefánsson hafi verið ráðinn bankastjóri í Landsbanka Íslands og hefur mótmælt því. Eigum við von á því að frumvarp komi inn í þingið frá hæstv. forsætisráðherra um að Ásmundur Stefánsson verði settur af? Hvernig endar sú stjórnsýsla sem boðuð er með þeim hætti og við höfum kynnst hér í dag ef menn byrja að senda bréf eða nótur í fjölmiðlum eins og hæstv. forsætisráðherra hefur gert með þessu bréfi og ummælum sínum um Ásmund Stefánsson í dag? Liggur þá ekki beinast við að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún ætli að beita lagasetningarvaldi eða leggja hér fram frumvarp til að Ásmundi Stefánssyni verði komið úr því starfi sem hann hefur verið ráðinn til að gegna um nokkurt skeið? (Gripið fram í: Fulltrúi Samfylkingarinnar.)

Hv. þingmenn hafa réttilega spurt í þessum umræðum hver hafi staðið að gerð þessa frumvarps. Það er von að hæstv. viðskiptaráðherra, nýkominn inn í Stjórnarráðið, átti sig ekki á því hvaða reglur gilda þar um gerð lagafrumvarpa. Á undanförnum árum hefur verið unnið að því í samvinnu Alþingis og ráðuneyta undir forustu forsætisráðuneytisins með þátttöku dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og starfsmanna hér í þinginu að búa til handbók um gerð löggjafar. Í þeirri handbók er lagt á ráðin um það hvernig eigi að vinna að lagafrumvörpum þannig að þingmenn hafi gegnsæi þegar kemur að því að vinna þau mál hér í þinginu. Allar þessar reglur eru hafðar að engu í þessu frumvarpi. Hæstv. forsætisráðherra sem nýverið flutti hér skýrslu um störf ríkisstjórnarinnar og boðaði siðbót á öllum sviðum hefur þessar reglur að engu við gerð þessa frumvarps. Ákveðnir gátlistar eiga að fylgja frumvörpunum og ákveðnar grunnupplýsingar sem menn eiga að geta haft hliðsjón af við vinnu mála og vinnslu mála hér. Allt er þetta haft að engu þegar þetta frumvarp er unnið.

Menn þurfa ekki að leita langt til að átta sig á fyrirmynd frumvarpsins. Hún er breytingartillaga sem þrír þingmenn Samfylkingarinnar fluttu við frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands sem hér var til umræðu árið 2001. Þá fluttu þau Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson og Margrét Frímannsdóttir breytingartillögu við það frumvarp. Séu þess tvö frumvörp borin saman, breytingartillagan og frumvarpið sem liggur hér fyrir, segi ég: Breytingartillagan var mun betri en þetta núverandi frumvarp. Þetta núverandi frumvarp er mun verr úr garði gert en breytingartillagan. Það er furðulegt að hæstv. forsætisráðherra skuli vinna þau skemmdarverk á eigin breytingartillögum sem birtast í þessu frumvarpi, því að í breytingartillögunum var þó gert ráð fyrir því að það væri hægt að vinna þessi mál þannig að það yrði ákveðið öryggi og samfella í stjórn Seðlabankans og nú er þetta lagt upp við okkur að það þurfi að breyta lögunum um Seðlabanka til að skapa öryggi og traust. Öll öryggisákvæðin sem voru í breytingartillögunum eru hins vegar afnumin í þessu frumvarpi og það er skilið eftir í algjörri óvissu hvernig í raun og veru eigi að haga stjórn Seðlabankans á breytingaskeiðinu og einnig þau ákvæði sem voru í breytingartillögunum um að það ætti að vera einn bankastjóri og tveir varabankastjórar. Síðan átti að gefa þeim mönnum sem sátu í bankastjórninni tækifæri til að ljúka starfsferli sínum áður en hið nýja kerfi kæmi til sögunnar. Þetta kemur fram í breytingartillögunum og er þar ákvæði til bráðabirgða.

Allt þetta er afnumið, settur einn bankastjóri, enginn veit hver á að vera staðgengill þessa bankastjóra og stjórnkerfið í raun og veru látið vera í lausu lofti þegar þessi tvö frumvörp eru borin saman. Ég veit ekki hver samdi þessar breytingartillögur á þeim tíma fyrir þau hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Jóhönnu Sigurðardóttur og Margréti Frímannsdóttur. En ég segi að höfundur breytingartillagnanna var skynsamari en höfundur þessa frumvarps og frumvarpið hefur tekið breytingum á verri veg í meðförum hæstv. forsætisráðherra. Það er raunar þannig fram sett, eins og fram hefur komið hjá öllum þeim sem hér hafa talað fyrir utan hv. þingmenn Samfylkingarinnar, að það þarf að grandskoða ákvæði frumvarpsins.

Ef þetta frumvarp verður að lögum eins og það er er Seðlabankinn mun verr settur stjórnunarlega en hann er í dag, enda kom það fram í umræðunum árið 2001 og þingnefndarmenn geta kynnt sér þær. Þær byggðust á framlögðum gögnum, greinargerðum, ábendingum og hugleiðingum sem voru vel rökstuddar. Það vantar allan rökstuðning í þetta frumvarp. Það kom m.a. fram í umræðunum að það væri spurning að hafa þrjá bankastjóra meðan Seðlabanka Íslands væri siglt inn í það umhverfi sem lögin frá 2001 skapa honum, aukið sjálfstæði gagnvart stjórnmálaöflunum og hinu pólitíska valdi. Það var samdóma álit nema þessara þriggja þingmanna að það væri eðlilegt að hafa þriggja manna bankastjórn meðan það væri verið að treysta sjálfstæði Seðlabankans í sessi innan ramma laganna frá 2001.

Með þessu frumvarpi hér er stigið skref til baka. Það er verið að auka hinn pólitíska íhlutunarrétt og skapa algjöra óvissu um málefni Seðlabankans þegar svona hroðvirknislega er staðið að málum. Eins og hér hefur komið fram hafa allar breytingar á lögum um Seðlabankann verið undirbúnar af nefndum með þátttöku allra stjórnmálaflokka til að skapa þá festu og það umhverfi um bankann að hann geti siglt áfram sem þessi sjálfstæða stofnun sem hann á að vera. Sjálfstæði hans var aukið árið 2001. Þau hroðvirknislegu vinnubrögð við þá hrákasmíð sem þetta frumvarp er verða til þess eins að veikja Seðlabankann. Það er furðulegt að nýr hæstv. viðskiptaráðherra, faglegur ráðherra, skuli telja sér trú um það og ætli að telja okkur trú um það að með svona hrákasmíð sé verið að styrkja Seðlabankann í sessi og efla hann sem stjórntæki í landinu. Ég segi: Það er nær fyrir hæstv. ráðherra að leggja til að bankinn verði lagður niður miðað við málflutning hans en að leggja til við okkur að þetta sé einhver búbót eða bragarbót á rekstri Seðlabankans.

Gerð lagafrumvarpsins er mikið mál fyrir okkur hér, þingmenn, til að átta okkur á. Hverjir eru sérfræðingarnir sem standa þarna að baki, hvaða rök eru fyrir því að breyta breytingartillögunum frá 2001 og koma með þær hingað? Hvað hefur gerst í millitíðinni? (Gripið fram í.) Þegar þetta mál var til umræðu hér í þinginu 2001 lýstu þingmenn, m.a. Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra sjálfur, Davíð Oddsson, því yfir að hann væri í sjálfu sér ekkert á móti því að það yrði einn aðalbankastjóri í Seðlabanka Íslands. Hann sagði: Við þurfum hins vegar að sigla þessu með þessum hætti á fyrstu árunum. Hann talaði um að fyrstu 10–20 árin ættu menn að hafa umhverfið svona og síðan mætti breyta því þegar fram liði, en það yrði að sjálfsögðu að gera með rökum, með rannsókn á því hvernig til hefði tekist og að menn hefðu uppi málefnaleg sjónarmið. Hæstv. viðskiptaráðherra kom ekki með nokkur málefnaleg sjónarmið, þetta voru sleggjudómar. Hann hefði alveg eins getað sagt þetta úti á Austurvelli á mótmælafundinum þar sem hann sagði að við hér í þinginu hefðum gefið fólki puttann í staðinn fyrir að rétta því höndina. Hann hefði alveg eins getað flutt þessa ræðu þar úti og lagt til að Seðlabankinn yrði lagður niður.

Ég er undrandi að menn skuli koma í þingsalinn og eiga að ávarpa okkur undir faglegum merkjum og tala með þessum hætti um mikilvægar stofnanir í ríkinu.