136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[17:47]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Frú forseti. Efist einhver um að Íslendingum hafi tekist einstaklega illa upp við að halda úti Seðlabanka og sjálfstæðri mynt má benda á eina staðreynd: Þegar skilið var á milli íslensku krónunnar og þeirrar dönsku fyrir síðari heimsstyrjöld var það gert þannig að þær voru jafngildar. Nú þarf 2.000 íslenskar krónur til að kaupa eina danska krónu ef tekið er tillit til þess að við týndum tveimur núllum aftan af okkar á miðri leið. Ef einhverjum finnst það merki þess að okkur hafi tekist vel upp við að reka Seðlabanka held ég að sá hinn sami lesi ekki rétt í tölur.

Hvað það varðar að ég ætti allt eins að leggja til að Seðlabankinn verði lagður niður þá gætir þar nokkurs misskilnings. Það má vel vera að það þurfi að gera mjög róttækar breytingar á peningamálum á Íslandi og jafnvel þannig að við tökum upp nýja mynt. Það eru reyndar ýmsir valkostir til í þeirri stöðu sem ég hef rakið annars staðar í löngu máli og hef tímans vegna ekki tíma til að endurtaka hér. En ef við tökum upp nýja mynt verður hlutverk íslenska Seðlabankans allt öðruvísi en áður. Það má vel vera að við endum á því að gera það. Það eru bæði kostir og gallar á því að fara þá leið og ég ætla ekki sérstaklega mæla með því að við gerum það núna en þetta er augljóslega ein af þeim grundvallarspurningum í efnahagsmálum okkar sem við þurfum að svara á næstu árum og það munum við gera. En það verður auðvitað ekki lagt til á þeim 80 dögum eða svo sem þessi stjórn hefur til ráðstöfunar að við gerum svo róttækar breytingar þannig að Seðlabankinn mun lifa og sjálfsagt mun hann einnig lifa jafnvel þó að skipt verði um mynt en þá verður hlutverk hans auðvitað allt annað.