136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[18:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil til að byrja með þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin svo langt sem þau ná. Ég vil líka lýsa ánægju með það að hæstv. forsætisráðherra vék að nokkrum þáttum í frumvarpinu og taldi eðlilegt að þeir væru teknir til nánari skoðunar í nefndinni. Mér finnst það ánægjuleg opnun af hálfu hæstv. forsætisráðherra og benda til þess, eins og margt sem hefur komið fram í umræðum í dag, að fjölda álitamála sé enn ósvarað og þurfi að komast að niðurstöðu um þau í störfum nefndarinnar og ég tek undir orð forsætisráðherra um að mikilvægt sé að þar verði vandað til verka.

Mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það hafi verið rétt skilið hjá mér að frumvarp þetta sé annars vegar byggt á breytingartillögunum sem fluttar voru vegna seðlabankalaganna 2001 og hins vegar á greinargerð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 2005. Mér leikur nokkur forvitni á að vita þetta vegna þess að þetta eru nýjar upplýsingar í málinu.