136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[18:16]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svarið við þessari síðari spurningu er nei, en ríkisstjórnin hlýtur náttúrlega að gera kröfu til þess að endurskipulagning á bankakerfinu gangi eins hratt fyrir sig og hægt er. Við höfum núna upplýsingar um að uppgjör á bönkunum gangi hægar en talið var í fyrstu og að ýmsir þættir í endurskipulagningunni, sem ég ætla ekki að nefna hér sérstaklega, gangi hægar fyrir sig. Ríkisstjórnin hlýtur að gera kröfu til þess að unnið sé innan bankanna með þeim hraða sem ásættanlegur er og eftir þeirri stefnu sem við viljum setja fram til að ná fram þeirri endurskipulagningu sem þarf á bönkunum. Hvað varðar ákvörðun bankastjórnar Landsbankans um að skipa nýjan bankastjóra fram á haust þá er ljóst að bankastjórnin mátti vita að slíkt gekk gegn stefnu ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) og þess vegna hljótum við að koma skoðunum okkar á framfæri í því efni. (Forseti hringir.) Ég tel ekkert við það að athuga að við gerum það með þeim hætti sem við höfum gert.