136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[18:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í landinu eru lög um Seðlabankann sem gilda í dag. Samkvæmt þeim lögum starfa þrír seðlabankastjórar við Seðlabankann. Hvernig má það vera að hæstv. forsætisráðherra sendi þessum mönnum bréf um að semja við sig af því að væntanleg séu einhver lög frá Alþingi? Hvernig má það vera?

Í öðru lagi á að ráða þarna faglega stjórn sem kallað er. Einn skal hafa gráðu í hagfræði, þ.e. bankastjórinn sjálfur, en engin krafa er gerð um menntun sem allir hinir skuli hafa, hvorki þeir sem eru innan Seðlabankans né þeir tveir sem bankastjóri kallar til sín. Þeir geta allir verið, miðað við það sem þar stendur, ómenntaðir.