136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[18:21]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin sem hún gaf í síðari ræðu sinni. Ég spurði í ræðu minni hæstv. ráðherra m.a. um framtíðarsýn og mögulegar breytingar sem gerðar yrðu á peningastefnu til framtíðar. Í svari sínu útilokaði hæstv. ráðherra ekki slíkar breytingar á framtíðarskipan peningamála og talaði um mögulegan starfshóp í þeim efnum. Ég fagna því að það verði tekið til athugunar.

Í því ljósi vildi ég spyrja aftur, af því að ég held að hæstv. ráðherra hafi ekki svarað því, hvort ekki væri rétt að útvíkka umsagnarferlið þannig að það nái líka til erlendra aðila, þar á meðal til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, vegna þess að mikið er vísað til orðspors okkar á erlendum vettvangi og ég teldi afar óheppilegt að rjúka af stað með tilviljanakenndar breytingar sem gætu gengið gegn þeirri mögulegu framtíðarstefnumótun sem ráðherra útilokaði ekki. Ég vil því endurtaka spurningu mína: Væri ekki rétt, ekki síst orðsporsins vegna, að útvíkka umsagnarferlið og láta það ná til erlendra aðila?