136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[18:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum orð hæstv. forsætisráðherra fyrir því að hér hafi verið faglega að verki staðið. Það sem ég benti á var að frumvarpið gefur engar upplýsingar um hvernig sú faglega vinna fór fram. Frumvarpið gefur engar upplýsingar um hvaða kostir voru skoðaðar eða á hvaða gögnum, hvaða skýrslum eða hvaða sérfræðiniðurstöðum var byggt þegar það var samið. Þess vegna vakti ég athygli á því að frumvarpið, og greinargerðin með því, er alveg ótrúlega rýrt í roðinu þegar borið er saman við stjórnarfrumvörp um mikilvæg mál sem lögð eru fram á Alþingi. Það gefur mér, því miður, tilefni til að efast um þau orð hæstv. forsætisráðherra að faglega hafi verið staðið að verki. Það má vera að þau orð mín reynist röng þegar málið verður krufið til mergjar í þeirri þingnefnd sem fær málið til afgreiðslu, þegar upplýsingarnar sem hæstv. forsætisráðherra getur ekki gefið okkur hér í þingsal um það hvernig staðið var að samningu frumvarpsins liggja fyrir. Það kann að vera að ég hafi rangt fyrir mér, það verður að koma í ljós. En frumvarpið sjálft, framsaga forsætisráðherra og þær upplýsingar sem hún hefur gefið í þessari umræðu gefa mér ekki tilefni til að ætla að fagleg, vönduð og yfirveguð vinna hafi búið að baki þegar þetta frumvarp var samið. Ég endurtek að það kann vel að vera að nefndarstarfið sem við eigum fyrir höndum eigi eftir að leiða í ljós að ég hafi haft rangt fyrir mér, það kann vel að vera. En frumvarpið, framsöguræðan og sú umræða sem fram hefur farið í dag gefur mér ekki tilefni til að breyta þeirri afstöðu sem ég lýsti áðan um að flausturslega væri að verki staðið.