136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

sameining heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

[15:10]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það var mikill skjálfti sem einkenndi mörg samfélög vítt og breitt um landið þegar fyrrv. heilbrigðisráðherra tilkynnti um samruna heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Það má gagnrýna þá aðferðafræði sem hæstv. ráðherra viðhafði því að heimamenn á viðkomandi stöðum fréttu í fjölmiðlum um þessi áform. Ég var einn af þeim sem gagnrýndu þessa aðferðafræði hæstv. ráðherra og hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerðu það líka. Nú er það svo að hæstv. núverandi ráðherra Ögmundur Jónasson er orðinn heilbrigðisráðherra og þá finnst mér brýnt að við á Alþingi fáum svör við því hvað hæstv. ráðherra ætlar sér að gera í málefnum heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Við erum að ræða um undirstöðustofnanir í mörgum byggðarlögum og það er mikilvægt fyrir íbúa á þessum landsvæðum að fá hrein og klár svör um þær aðgerðir sem hæstv. ráðherra ætlar að grípa til. Á að fylgja eftir þeirri stefnu sem hæstv. þáverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson, boðaði eða ætlar hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra að koma með einhverjar nýjar tillögur í þessu brýna hagsmunamáli sem snertir hag landsbyggðarinnar allrar? Málið er mjög viðkvæmt og þess vegna er mjög mikilvægt að við eyðum allri óvissu í þessum stóra málaflokki.