136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

sameining heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

[15:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Vandinn er sá að reynt hefur verið að keyra fram breytingar samkvæmt valdboði að ofan. Þá mundi skjóta skökku við að ég kæmi með klæðskerasaumaðar lausnir. Vinnulagið verður einmitt þetta, að hlusta á óskir fólks á viðkomandi svæðum og þá þeirra sem starfa við þessa þjónustu og þeirra sem njóta þessarar þjónustu. Það er nokkuð sem ég hef gert t.d. á suðvesturhorninu. Eins og menn vita risu miklar deilur varðandi áform hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Þar hef ég átt fundi með forsvarsmönnum á svæðinu, m.a. bæjarstjóranum í Hafnarfirði. Ég hef átt fundi með Vinum Hafnarfjarðar sem eru hollvinasamtök sjúkrahússins. Ég hef talað við forstöðumenn á sjúkrahúsinu og ekki aðeins þar heldur einnig á öðrum stofnunum á suðvesturhorninu til að leita sátta en ég hef gert grein fyrir því hver mín pólitísku markmið eru. Þau eru að tryggja starfsemi, tryggja að sjúkrahús verði rekið í Hafnarfirði og svara þannig kalli íbúanna á svæðinu og leita lausna sem eru til þess fallnar að fara sem allra best með skattinn.