136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

vegaframkvæmdir á Vestfjörðum.

[15:19]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að í einum landshluta, þ.e. Vestfjörðum, eru margir vegir allt að 50 ára gamlir og erfiðir yfirferðar. Því er rétt að fara yfir það sem hv. þingmaður spyr um. Hverju á að ljúka og hvaða nýframkvæmdir standa til.

Áætlað er að ljúka framkvæmdum í Djúpinu, bæði þverun Mjóafjarðar og því sem er verið að gera þar og innar í Ísafirðinum. Arnkötludalnum lýkur væntanlega nú í sumar. Þessum tveimur verkum átti að vera lokið síðastliðið haust en þau hafa tafist.

Suður í Gufudalssveit er smákafli í Þorskafirði sem átti líka að klárast á síðasta ári en frestaðist og verður ekki lokið við fyrr en í sumar. Í Gufudalssveit er þverun Gufufjarðar og (Gripið fram í: Djúpafjarðar.) Djúpafjarðar og Gufufjarðar, svo ég hafi þetta nú rétt. Það mál var kært og liggur hjá Hæstarétti og bíður dómtöku sem getur verið að verði ekki fyrr en eftir þinghlé.

Hins vegar er nú verið að bjóða út stórt og mikið verk sem var eitt af fyrstu verkunum sem var boðið út eftir að útboðsbanni lauk. Það er 16 kílómetra kafli í Kjálkafirði og Vatnsfirði þar sem tilboð verða opnuð 24. febrúar og á verkinu að vera lokið 2010.

Ef við förum svo yfir í jarðgöngin þá standa framkvæmdir yfir við Bolungarvíkurgöng og ganga þær mjög vel. Undirbúningi að Dýrafjarðargöngum er haldið áfram. En ég hygg að við bíðum eftir að Bolungarvíkurgöngum ljúki áður en Dýrafjarðargöng verða boðin út.

Ég vil líka segja, virðulegi forseti, að nú er verið að velja mannaflsfrek verk til framkvæmda og þá getur verið að framkvæmdaverk eins og jarðgangagerð bíði vegna þess að slíkar framkvæmdir krefjast mikils útflæðis á gjaldeyri (Forseti hringir.) og eru ekki eins mannaflsfrekar og ýmsar aðrar. Ég vona, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að ég hafi svarað flestu sem spurt var um.