136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

vegaframkvæmdir á Vestfjörðum.

[15:23]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að nú sé akkúrat tími fyrir framkvæmdir. Miklar framkvæmdir eru í gangi og fram undan. Svo ég fari aftur yfir það sem er á Vestfjörðum þá ítreka ég það sem ég sagði áðan. Loks er komið að útboði Kjálkafjörður–Vatnsfjörður. Ég harma það að þverunin í Gufudalssveit frestast vegna kærumála, vegna deilna milli landeigenda og Vegagerðar. Það mál bíður þess að verða útkljáð hjá Hæstarétti.

Ég vil halda því fram, virðulegi forseti, að töluvert miklar framkvæmdir séu í gangi á þessu svæði, eins og ég fór yfir áðan. Arnkötludalur, framkvæmdir í Djúpinu, Bolungarvíkurgöng og ýmis önnur smærri verk eru í gangi á svæðinu og í farvatninu til útboðs eða vinnu. Ég minni á að ekki allt er boðið út, því auðvitað verður staðið við þjónustuliði og viðhald.