136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

áform um skattahækkanir.

[15:29]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að lýsa ástandinu eins og það er og ég tel að ég hafi varpað fram raunsærri lýsingu á ástandinu. Við búum við háa vexti og mikla verðbólgu. (Gripið fram í.) Við vitum að gengið hefur hrunið og mörg heimili eiga í vanda. Margir eru atvinnulausir eða hafa tekið á sig tekjuskerðingu. (Gripið fram í.) Það breytir engu hverjir hafa verið í ríkisstjórn. Svona er ástandið og það breytist ekkert með þessum orðum hæstv. forsætisráðherra.

Ekkert þýðir að klína ástandinu á Sjálfstæðisflokkinn. Ég veit ekki betur en að hæstv. forsætisráðherra hafi verið stóran hluta tímabilsins í ráðuneyti og setið í ríkisstjórnum.

En það vekur athygli að á þessum tímum og við þessar aðstæður lýsi hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra því yfir að þau séu reiðubúin til að hækka skatta á fólkið í landinu. Það (Forseti hringir.) vekur furðu að ríkisstjórn sem segir í öðru (Forseti hringir.) orðinu að hún ætli að slá skjaldborg um heimilin í landinu vilji í hinu orðinu taka stærra hlutfall tekna þeirra í sína vörslu og eyða þeim. (Gripið fram í.)