136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

hvalveiðar.

[15:44]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, þáverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ákvað að nýta síðustu stundirnar í ráðuneytinu sínu vel, að eigin viti líklega. Það má lýsa þeim gjörningi með ýmsum hætti að gefa út reglugerð í starfsstjórn daginn fyrir stjórnarslit. Líklega var tilgangurinn sá einn að koma nýrri ríkisstjórn í bobba. Líklega var tilgangurinn sá einn að sýna einhvers konar pólitísk klókindi og stilla hlutunum upp með þeim hætti að síðan væri hægt að nýta það í pólitískum tilgangi á þeim vikum sem fram undan eru. Ég hefði haldið að ekki væri mikil eftirspurn eftir slíkum klækjastjórnmálum þessa síðustu daga. Ég hefði haldið að menn vildu kannski standa með öðrum hætti að málum ef menn vilja taka málefnalega afstöðu til þess máls sem hér um ræðir, hvort veiða eigi hvali og skjóta hvali við Ísland eður ei.

Á því eru ýmsar hliðar. Á því er hin vísindalega, fiskifræðilega hlið, leyfi ég mér að segja, og efnahagslega hliðin sem áhangendur hvalveiða hafa lagt sig í líma við á undanförnum mánuðum að sýna fram á og síðan er það ósköp einfaldlega sú hlið er varðar stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og hún er, ef hv. þingmenn hafa enn ekki gert sér grein fyrir því, ekkert sérstaklega sterk þessa dagana. Kannski var þessi gjörningur hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra innlegg sjálfstæðismanna í erfiðar samningaviðræður um Icesave-kjörin. Líklega halda sjálfstæðismenn enn að hægt sé að fara sínu fram (Gripið fram í.) og það skipti engu (Forseti hringir.) máli að aðrir hafi annarra (Forseti hringir.) hagsmuna að gæta. Hafi það verið raunin lýsir það eðli Sjálfstæðisflokksins best.