136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

hvalveiðar.

[15:51]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þeirri spurningu var velt upp hérna áðan hvers vegna ég hefði tekið þá ákvörðun að gefa út þá reglugerð sem hér er til umræðu. Ástæðan var mjög einfaldlega þessi: Að geta hafið hér hvalveiðar, haldið áfram hvalveiðum. Það var ekkert annað sem vakti fyrir mér með þessari reglugerð.

Hér hafa menn gagnrýnt að þessi ákvörðun hafi ekki verið tekin fyrr. Eru menn þá ekki að segja að forsendurnar til þess að taka ákvarðanirnar hafi allar legið fyrir? Jú, auðvitað. Það er alveg rétt. Þessar forsendur lágu fyrir. Þær lágu fyrir í haust. Í fyrsta lagi voru vísindalegar forsendur til staðar. Það liggur fyrir að þetta er í samræmi við íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar. Í þriðja lagi lá það fyrir síðla hausts að öllum hindrunum varðandi að selja þessar afurðir úr landi hefur verið rutt úr vegi. Þess vegna hóf ég þá undirbúning að útgáfu reglugerðarinnar. Í janúar var það svo ljóst mál að ekki var eftir neinu að bíða og þá gaf ég að sjálfsögðu út þessa reglugerð.

Mér finnst að menn sem ræða þessi mál núna og vita að þau hafa verið mjög til umræðu hér á Alþingi, sem vita að þessi mál hafa verið rædd svo mikið í þjóðfélaginu og vita auðvitað að allar forsendur eru til staðar — og þrátt fyrir að hæstv. núverandi ráðherra hafi ekki fundið einhver minnisblöð í þessu sambandi þá liggja allar þessar forsendur fyrir. Allar upplýsingar liggja m.a. fyrir í ráðuneytinu eins og hann veit.

Menn verða að svara einni mjög einfaldri og efnislegri spurningu: Á að halda áfram hvalveiðum í samræmi við samþykkt Alþingis frá 1999, í samræmi við þá ákvörðun sem ég tók með fulltingi þáverandi ríkisstjórnar á haustdögum 2006 að hefja hér atvinnuveiðar bæði á hrefnu og langreyði? Þessar ákvarðanir liggja fyrir og það sem við erum núna að taka afstöðu til er hvort hverfa eigi frá þessari stefnumótun Alþingis, frá þeirri stefnumótun sem mörkuð var af framkvæmdarvaldinu haustið 2006 að hefja veiðar. Veiðar á hrefnu og langreyði hafa staðið yfir um árabil, á hrefnu frá árinu 2003 og langreyðarákvörðunin var tekin árið (Forseti hringir.) 2006. Það er þess vegna hlálegt þegar menn reyna að koma sér fram (Forseti hringir.) hjá einfaldri spurningu með því að þvæla málin þegar efnislegu forsendurnar eru allar til staðar: Á að halda áfram hvalveiðum eður ei?