136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

hvalveiðar.

[15:54]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Í þessari umræðu segja menn að allar forsendur liggi fyrir varðandi þá ákvörðun sem hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra tók um breytingar á reglugerðinni. Ég vil leyfa mér að draga í efa að það sé rétt. Ég vil leyfa mér að halda því fram að hvað svo sem hafi legið að baki ákvörðun hv. þingmanns og þáverandi hæstv. ráðherra hafi það ekki verið vandað hagsmunamat.

Þegar ég tala um vandað hagsmunamat vil ég meina að horfa þurfi til allra hagsmuna, ekki bara þröngra hagsmuna þeirra sem eru þeirrar skoðunar, hvort sem það er af tilfinningalegum ástæðum eða ekki, að það eigi að halda áfram að veiða hvali og færa út kvíarnar í þeim efnum og fara að veiða stórhveli.

Hagsmunir annarra atvinnugreina eru gríðarlega miklir. Við þingmenn höfum fengið nú á síðustu dögum áskoranir t.d. frá samtökum ferðaþjónustunnar um að afturkalla þessa ákvörðun. Við fáum upplýsingar um ferðir séu afpantaðar hér jafnvel upp á hundruð þúsunda á dag hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. (Forseti hringir.) Ég fékk upplýsingar um það á föstudaginn var að ferð var afpöntuð upp á 800 þús. kr. á fimmtudaginn í síðustu viku. (Gripið fram í.) Ég var að tala um krónur. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Ég hefði nú haft gaman af því að fá hljóð til þess að flytja ræðu mína. Ég hef mjög margt um málið að segja. Mér þætti gott ef ég gæti fengið að flytja ræðu mína í friði.

Ég vil minna á að við erum skuldbundin af alþjóðasamningum og þeir alþjóðasamningar eru t.d. CITES-samningurinn sem varðar verslun með dýr í útrýmingarhættu. Og hvort sem okkur líkar betur eða verr er langreyður á þeim lista sem hefur verið samþykktur sem útrýmingarhættulisti. Við erum líka samkvæmt 65. gr. hafréttarsáttmálans skuldbundin við að eiga (Forseti hringir.) samvinnu um nýtingu þessara tegunda. Það hefur engin slík samvinna farið fram. (Forseti hringir.) Það er gríðarlega margt sem á eftir að meta í þessu máli og ég hef þá bjargföstu (Forseti hringir.) trú að hv. þingmaður hafi farið (Forseti hringir.) fram úr sér þegar hann tók þá ákvörðun sem hann tók rétt áður en hann lét af embætti sjávarútvegsráðherra.