136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

hvalveiðar.

[15:58]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér gamlan kunningja, ef svo má segja, hvalveiðimálið. Það hefur oft verið til umræðu hér á Alþingi. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar og lýsi því enn og aftur að ég er fylgjandi því að við nýtum okkar auðlindir í hafinu og þar með talið hvalastofnana með sjálfbærum hætti og á vísindalegum forsendum.

Hafrannsóknastofnun hefur um langan tíma rannsakað hvalastofnana og viðgang þeirra og það hefur legið fyrir veiðiráðgjöf frá Hafró varðandi hvalveiðar í alllangan tíma.

Ég er þeirrar skoðunar að núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra eigi að fylgja eftir þeirri reglugerð sem fyrrverandi ráðherra gaf út. Það er auðvitað nauðsynlegt fyrir þessa atvinnugrein að hafa fyrir sér einhverja framtíðarsýn um hvað verða megi varðandi hvalveiðarnar til nokkurra ára. Það gildir nákvæmlega sama um þessa grein eins og aðrar.

Komið hafa fram efasemdir um að sú reglugerð sem fyrrverandi ráðherra gaf út, hafi takmarkað gildi vegna þess að þá var um starfsstjórn að ræða. Ég vil beina því til hæstv. núverandi ráðherra að gefa þessa reglugerð út aftur í eigin nafni þannig að taka megi af allan vafa í því máli. Ég tel einnig að það liggi fyrir öll sjónarmið í þessu máli. Það er nú ekki lítið búið að fjalla um þessi mál mörg undanfarin ár. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að mínu viti að á Alþingi er mikill meiri hluti þingmanna hlynntur því að hér séu stundaðar hvalveiðar. Því vil ég skora á hæstv. ráðherra að leysa úr þessum hnút sem allra fyrst þannig að það liggi fyrir helst á morgun eða í dag hvað verður í þessu máli og að sjálfsögðu þannig að við förum af stað með hvalveiðarnar eins og lagt hefur verið upp með.