136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

hvalveiðar.

[16:00]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Við erum að tala um hugsanlegar tekjur af hvalveiðum upp á 4–5 milljarða á ári og hugsanlega 250–300 störf við hvalveiðar. Við erum að tala um veiðar á hrefnu og langreyði en ég hefði talið að við ættum að veiða hnúfubak líka sem er orðið allt of mikið af og er víða til mikils ama fyrir þá sem eru að veiða síld og sérstaklega loðnu.

Sala á hvalafurðum er ekkert vandamál. Það hefur verið notað sem rök í málinu að það væru vandræði með að selja hvalafurðir. Það er auðvitað ekki rétt, sem betur fer. Fiskifræðilega hliðin á þessu máli er sú að Hafrannsóknastofnun telur að það megi veiða mikið af þessum tegundum og það er ekkert að því.

En það sem snýr að þessu — það er allt í lagi að koma með þá umræðu inn í málið — það er alveg sjálfsagt að bjóða upp veiðileyfagjald eða þessar veiðar og tryggja að ríkið fái sinn hlut með því að bjóða aðgang að hvalveiðum og leyfa mönnum sem treysta sér til að fara í þessa atvinnugrein að bjóða í það.

Þetta á ekki að vera eins með og aðrar kvótabundnar tegundir, að það sé sjálfgefið að einhvern einn eigi þetta og fái að nýta af því arð. Þetta er sameign þjóðarinnar og við eigum að leyfa samkeppni um þessar veiðar eins og aðrar.

Hvað varðar hvalaskoðun þá er alveg hægt að búa til einhvern radíus í kringum þau svæði sem eru stunduð af hvalaskoðunarskipum og tryggja að þar fari ekki saman veiðar og hvalaskoðun. Það er lítið og létt verk að gera það. En ég óttast að vinstri grænir í sinni náttúruhugsjón og náttúruvernd ætli með þessu að verða einhver hundasúruríkisstjórn.