136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

þingmannamál á dagskrá.

[16:08]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Á dagskránni í dag eru fjögur þingmannamál. Ég vek athygli á því að hæstv. forseti Guðbjartur Hannesson hafnaði að taka á dagskrá mál frá Sjálfstæðisflokknum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, um tímabundna útgreiðslu séreignarsparnaðar til niðurgreiðslu skulda viðkomandi rétthafa.

Hæstv. forseti Guðbjartur Hannesson hefur fullvissað mig um að málið verði á dagskrá á morgun. Vil ég þakka forseta fyrir það en vek jafnframt athygli á því að þetta er mál sem hefði þurft að koma til umræðu sem fyrst. Margar fjölskyldur bíða eftir því að fá úrlausn hvað þetta varðar. En í ljósi þess að málið kemst á dagskrá á morgun munum við ekki gera frekari athugasemdir við það núna.