136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[16:11]
Horfa

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Þetta mál er flutt af þeim sem hér stendur og hv. þingmönnum Grétari Mar Jónssyni og Jóni Magnússyni og var lagt fram nokkuð snemma á haustdögum, en er nú að komast til umræðu og hefur málsnúmer 63.

Frumvarpið gengur út á að opna fyrir það hér á landi að menn geti stundað takmarkaðar handfæraveiðar á eigin bát. Ég fór fyrir nokkrum dögum upp í pontu, herra forseti, og ræddi þetta lauslega við sjávarútvegsráðherra, með örlítið öðrum blæ en hér er lagt upp með því að við leggjum hér til stefnubreytingu á stjórn fiskveiða til fimm ára alla vega að því er varðar þessa frumvarpstillögu okkar. En umræðan sem ég tók upp við hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir fáum dögum var um það hvort sérstaklega væri hægt að bregðast við, með þeirri hugsun sem hér er lögð til í frumvarpsformi, innan þessa fiskveiðiárs, m.a. með tilliti til þess atvinnustigs sem er í landinu, vaxandi atvinnuleysis, þeirrar stöðu sem komin er upp vítt og breitt — og því miður allar líkur á því að atvinnuleysi haldi áfram að vaxa hér á landi.

Tillagan er svo sem ekki mjög flókin, hæstv. forseti. Hún gerir ráð fyrir því að öllum íslenskum ríkisborgurum, sem hafa til þess tilskilin réttindi, þ.e. skipstjórnar- eða vélstjórnarréttindi ef þess þarf með, vegna stærðar vélar viðkomandi báts, sé heimilt að stunda takmarkaðar handfæraveiðar, þó aðeins þannig að það megi vera tvær sjálfvirkar handfærarúllur á hvern mann og eigi séu heimiluð meiri afköst á viðkomandi bát en tveggja manna áhöfn anni.

Hér er einnig lagt til að tímabilið sem gildi um þessar sérstöku veiðar á hverju ári sé frá 1. apríl til 1. október. Einnig er lagt til að menn sem fá þessa heimild megi ekki vera á stærri fleytum en 30 brúttólesta bátum. Verður að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að það er ágætlega rúmt um tvo menn á 30 rúmlesta bát. Það er ekki mjög þröngt á dekki á því skipi en samt er það svo að einn og tveir menn hafa stundað veiðar í áratugi einmitt á bátum undir 30 brúttólestum og er það vel þekkt vítt og breitt í sjávarbyggðum landsins.

Menn spyrja kannski: Er ekki hér verið að galopna slíka sóknaraukningu þannig að ekki verði við neitt ráðið? Ég vil byrja á því að lýsa þeirri skoðun minni, hæstv. forseti, sem ég veit að margir vita sem sett hafa krók í sjó, að eigi veiðist alltaf á krókinn þó niður fari. Menn þurfa þá alla vega að hitta á fisk sem vill taka krók til að fá afla, það er fyrsta skilyrðið.

Í öðru lagi er sjósókn með handfærum háð veðri, það ber lítinn árangur að reyna að stunda handfæraveiðar í miklum vindi eða miklu sjólagi. Það þekkja allir sem reynt hafa, meira að segja þeir sem bara hafa reynt að veiða með sjóstöng að gamni sínu, að ekki fer krókurinn og sakkan langt niður við slíkar aðstæður og lítið veiðist. Af náttúrulegum ástæðum hafa slíkar veiðar sem hér er verið að leggja til að heimila mjög takmarkaða sóknargetu og ráðast mikið af tíðarfarinu. Við segjum líka í þessum hugmyndum okkar að að sjálfsögðu þurfi þessir bátar, eins og aðrir bátar sem á sjó fara við Ísland, að vera búnir sjálfvirkum tilkynningarskyldubúnaði og hafa öll fullkomin öryggistæki, viðurkennt haffæri o.s.frv. Það er ekki eins og verið sé að heimila að hér sé allt galopið án neinnar kröfu, að menn þurfi að óttast að einhver sóknarbylting verði vegna þessa. Ég bendi einnig á það, hæstv. forseti, að á undanförnum vikum, mánuðum og jafnvel síðustu einu til tveimur árum, hefur mikill fjöldi smábáta verið seldur úr landinu, jafnvel svo mikill að fyrir þá sem eru að spá í að endurnýja báta sína eða stækka þá er ekki um auðugan garð að gresja í slíkum viðskiptum og er það nokkurt nýmæli á Íslandi miðað við það sem verið hefur á undanförnum árum.

Það er auðvitað hugsanlegt að takmarka sóknargetuna með fleiri þáttum og við nefnum það í 1. gr. frumvarpsins. Við nefnum að skilgreina megi veiðisvæði þeirra báta sem fá þetta takmarkaða veiðifrelsi. Það er ekkert launungarmál, hæstv. forseti, að við erum sérstaklega að horfa á sjósókn frá sjávarbyggðunum á ströndum þessa lands og með það í huga að gefa mönnum ákveðið frelsi til að sækja á sín heimamið. Við bendum einnig á, hæstv. forseti, að það megi að sjálfsögðu horfa til þess að takmarka fjölda veiðidaganna ef menn óttast að slík ráðstöfun sem hér er tekin upp væri að setja eitthvað verulega á hliðina að því er varðar nýtingu sjávarauðlindarinnar. Sá sem hér stendur hefur hins vegar engar áhyggjur af því að slíkt kerfi sem upp væri tekið með umræddum takmörkunum mundi leiða slíkt af sér en það gæti hins vegar leitt af sér tilfinningu manna fyrir því að þeir hefðu aftur eitthvert frelsi til að stunda fiskveiðar við Ísland. Á þann hátt væri kannski komið til móts við það sem m.a. birtist í niðurstöðum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, að opnað væri á frelsi, þó takmarkað sé, en reyndar er allt frelsi takmarkað. Við þurfum ekki annað en nefna vörubílstjórann sem vill keyra möl, hann þarf sérréttindi á þann bíl. Rútubílstjórinn þarf sérréttindi. Læknar, flugmenn og annað fólk þarf sérréttindi. Kennarar þurfa sérréttindi til að stunda atvinnu sína og við erum að benda á það að eðlilega þurfi menn að hafa skipstjórnarréttindi og jafnvel vélstjóraréttindi ef vélarstærð er þannig í viðkomandi bát. Það er því ekki eins og hér sé verið að leggja til opnun að öðru leyti en því að allir verða að uppfylla þau skilyrði sem sett eru sem eru talsvert takmörkuð eðli málsins samkvæmt. Menn þurfa að hafa, alla vega eins og við höfum hugsað þetta í upphafi, eignarhald á þeim fleytum sem þeir vildu stunda þetta á og strax þar kemur upp veruleg takmörkun.

Ég hef líka heyrt það frá mönnum sem ég hef rætt þessa tillögu við að margir sjómenn, sem áður fyrr hafa stundað vinnu til sjós og gætu hugsað sér að vera þátttakendur í svona regluverki eins og hér er — athafnaregluverki um það hvar þeir mættu veiða, á hve mörgum dögum, svæðum o.s.frv. — þeir hafa margir nefnt það við mig að það væri mjög eðlilegt að setja þá takmörkun á slíkar veiðar að ekki væri sótt á helgum, sunnudögum alla vega, til þessara veiða. Þá hafa menn líka verið að horfa til þess að tryggt sé að hráefnið sem menn koma með að landi komist í sölu á eðlilegum tíma og komist til fiskverkunarhúsa. En eins og menn vita hefur þróun í vinnu til lands einmitt verið á þann veg að það er takmörkun á vinnutímanum og takmörkun á því er snýr að frídögum fólks. Og þó áður hafi verið hér í gildi — og ég hef reyndar hvatt til þess að Íslendingar vinni mikið undir þeim kringumstæðum sem nú eru, og hef nefnt það úr þessum ræðustól að vinnan göfgi manninn og eftirvinna jafnvel enn þá meira, eins og sumir hafa sagt, tel ég eðlilegt að horfa til allra skynsamlegra takmarkana, bæði til að tryggja gæði þess hráefnis sem kemur á land og eins til þess að virk stýring sé á þessu takmarkaða frelsi, og það leggjum við til í þessu máli. Við leggjum einnig til að sá afli sem kæmi á þessa báta yrði ekki reiknaður inn í aflamarkskerfið og breyti því ekki þó að þessi aðferð verði tekin upp og hleypt í framkvæmd og hafi þar af leiðandi ekki áhrif á það heildaraflamark sem nú er úthlutað.

Það er svo annað mál, sem ég mæli væntanlega fyrir á eftir, hæstv. forseti, sem snýr að því hvernig við hugsum okkur að breyta íslenska kvótakerfinu og kalla aflaheimildir heim til íslensku þjóðarinnar sem á heimildirnar. Og útgerðarmönnum framtíðarinnar — ef tekst að fá vilja fyrir því í meiri hluta Alþingis að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu þá verði úthlutunin þannig að í framtíðinni hafi menn ekki eignarhlutdeildarleigu, sölu eða veðsetningarrétt á fisk í sjó heldur eingöngu nýtingarrétt. Sá nýtingarréttur sé fenginn frá eignarheimild þjóðarinnar sem eigi aflaheimildirnar og þeim sé svo framvísað eða þær leigðar út eftir ákveðnu kerfi sem enginn vandi er að setja upp í sjálfu sér en ég kem nánar að því síðar í dag, hæstv. forseti.

Við segjum í stuttri greinargerð með þessu máli að það hafi löngum verið réttur Íslendinga við sjávarsíðuna að fá að róa til fiskjar. Það er þekkt að útróðrarjarðir voru líklegri til þess að brauðfæða fólk og gefa tekjur en jarðir sem lágu illa að fiskislóð. Þetta er auðvitað þekkt og byggðir landsins eru þar sem þær eru vegna þess að þær þóttu góðar til sjósóknar, lágu annaðhvort vel að fiskimiðum eða landhættir voru þannig að gott var að sækja þaðan sjó. Þannig háttar til um allar sjávarbyggðirnar.

Útróðrarrétturinn var löngum metinn til verðmæta í jörðum og talinn til sérstakra hlunninda og taldist þar með til verðmæta viðkomandi jarða og menn borguðu af þessu skatta og skyldur. Í gömlum lögum okkar Íslendinga er einnig sagt að mönnum skuli tryggður veiðiréttur í fjörðum og flóum. Það er orðað eitthvað á þá leið að rétt ættu menn til fiskveiði sinnar innan flóa og fjarða nema síldveiði væri. Það lýsir því auðvitað að síldin er ólíkindatól, kemur í firði og kemur í flóa og getur farið þaðan aftur innan örfárra ára. Þetta höfum við vissulega séð vera að gerast við Ísland undanfarin ár þegar svo til allur síldarstofninn kom sér fyrir í Grundarfirði og er núna inn um sker og sund á Breiðafirði og inni í höfnum, m.a. á Suðurnesjum og Vestmannaeyjum og kannski víðar. Síldveiðin þótti ekki það trygg að rétt væri að marka mönnum sem við flóana og firðina bjuggu sérstakan forgang nema botnfiskveiðina sem var skilgreind sem fjarðaveiði manna, vegna þess að ef síldin gaf sig áttu allir að geta tekið þátt í henni og veitt úr síldargöngunum. Þannig var þetta markað í gömlum lögum Íslendinga og má reyndar enn finna í lagasafninu þó að það sé túlkað svo í dag að til þess þurfi aflahlutdeild. Þegar þetta var svo orðað áttu landsmenn auðvitað allir tryggan rétt til forgangs um fiskveiði nærri byggðum sínum. Þannig eru þessi sjónarmið um þennan byggðatengda rétt sem er mjög ríkur í umræðunni um stjórn fiskveiða í dag, strandveiðiréttinn, forgang fólksins við sjávarsíðuna til að nýta strandbyggðina. Ég held að það væri mikið gæfuspor ef við mundum marka það skýrt að menn ættu rétt til strandveiði fyrir framtíðina.

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir meginefni frumvarpsins. Ég hef vakið athygli á því að það tekur einnig á því máli sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna ályktaði um, þ.e. að hér væri óeðlilegt fyrirkomulag sem byggðist á því að ef sjómenn vildu sækja til fiskjar þá skyldu þeir leigja réttinn af einhverjum öðrum sem hefði fengið hann. Þessi tillaga okkar um breytingu á lögum tekur einnig til þess að opnaður yrði ákveðinn réttur og yrði viðurkenning á því að réttarstaða manna er ekki jöfn til fiskveiði eða með neinum hætti til að nýta frá ströndinni. Rétturinn sem búið er að úthluta í mörg ár situr fastur hjá þeim sem fengu hann á sínum tíma og aðrir verða að kaupa réttinn hjá þeim. Það er sem sagt gamla vistarbandshugsunin, að kaupa atvinnurétt sinn af öðrum og borga fyrir það, að hér skuli mönnum úthlutað gæðum og aðrir borgi þeim svo fyrir að fá að nýta þau gæði. Það teljum við í Frjálslynda flokknum að eigi að afleggja. Við gerum okkur grein fyrir því að til að gera það þarf að marka skynsamlega vegferð í þeim málum. Ég kem að því, hæstv. forseti, í næsta máli og ætla ekki að orðlengja það lengur undir þessum lið. Það er einfaldlega þannig að ef þetta frumvarp fengi að fara í gegnum þingið væri alla vega búið að viðurkenna lítinn rétt byggðanna, lítinn og takmarkaðan rétt byggðanna en þó frelsisrétt og einnig rétt þeirra sem eiga land að sjó, sjávarjarðanna, þaðan sem gott er að sækja fisk. Það mundi muna miklu, hæstv. forseti, víða í byggðum landsins ef fólk sem stundar landbúnaðarstörf og býr við flóa og firði — og þannig hagar til að það getur sótt sjó — fengi takmarkaðan rétt til að auka tekjur sínar með sjósókn. Það mundi víða skipta miklu máli varðandi byggðaþróun og atvinnutekjur þessa fólks.