136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[16:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að leggja nokkur orð í belg um það frumvarp eða þau mál sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson er með á dagskrá og tengjast sjávarútvegsmálum. Ég vil fyrst segja að hv. þingmaður er kunnur áhuga- og eljumaður um málefni sjávarútvegsins og hefur lagt mikið til þeirrar umræðu á undanförnum árum, þar á meðal þær hugmyndir sem hér eru í frumvarpi á þskj. 63 um að opna fyrir handfæraveiðar á minni fiskiskipum. Ég verð að játa að ég hef oft hugsað svipaðar hugsanir sjálfur og er að mörgu leyti skotinn í hugmyndum af því tagi að einhvern veginn yrði reynt að opna fyrir eitthvert uppeldi eða nýliðun neðan frá og eitthvert frelsi í þeim efnum. Oftast staðnæmist maður þá við einhverja möguleika sem tengjast sumarútgerð á minnstu fiskiskipunum.

Ég hef líka oft velt fyrir mér stöðu sjávarjarðanna í þessum efnum og hversu dapurlegt það er að jarðir við sjávarsíðuna sem hafa frá alda öðli byggt afkomu sína að hluta til á því að geta sótt á grunnmiðin við landið standi núna uppi réttlausar eins og raun ber vitni.

Þessir hlutir hafa skipast með tilteknum hætti eins og við öll þekkjum og er það mikil saga, 25 ára gömul, frá því að lög um stjórn fiskveiða voru afgreidd fyrir áramótin 1983. Það vill svo til að sú saga er jafngömul veru ræðumanns á Alþingi og ég minnist mjög þeirrar umræðu sem varð í desembermánuði og inn í jólaleyfi og tengdist ekki síst þá miklum átökum um tilurð kvótakerfisins í sinni upphaflegu mynd. Varðandi hins vegar það frumvarp sem hér er flutt af hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, Grétari Mar Jónssyni og Jóni Magnússyni, þingmönnum Frjálslynda flokksins eða a.m.k. þáverandi þingmönnum Frjálslynda flokksins, verð ég að segja að þegar ég staldra aðeins við útfærslur þær hlýt ég að hafa á því mikla fyrirvara sem hv. málshefjandi og framsögumaður kom svo sem inn á sjálfur. Spurningin er hversu umfangsmiklar veiðar mundu geta skapast ef málum yrði þannig fyrir komið að allir íslenskir ríkisborgarar með tiltekin réttindi gætu stundað veiðar á tímabilinu 1. apríl til 1. október ár hvert sem er stór hluti ársins og sá hluti þegar gæftir eru að jafnaði bestar á fiskiskipum allt að 30 tonnum eða 30 brúttórúmlestum. Þeir mættu hafa sínar tvær sjálfvirku handfærarúllurnar hvor þó að tveir menn væru í áhöfn. Fljótt á litið sýnist mér að það gæti orðið býsna umfangsmikil útgerð og drjúgur afli ef harðsnúnir fiskimenn á kraftmiklu skipi, tæpar 30 brúttórúmlestir, mundu sækja stíft allan þennan tíma. Það mundi geta haft umtalsverð áhrif á heildarmagnið sem tekið væri úr þeim stofnum sem yfirleitt gefa mest af sér á handfæraveiðum.

Ég hlýt að segja fyrir mitt leyti að jafnvel þótt menn vildu skoða í fullri alvöru möguleikana á því að opna þarna með einhverjum hætti glugga, sem mér finnst sjálfsagt mál að gera, mundi kannski vera óvarlegt að gera það nema á grundvelli allmiklu meiri takmarkana og stífari reglna en þarna er gert ráð fyrir. Sérstaklega ekki ef ætlunin væri að það yrði fyrst að fimm árum liðnum sem það yrði þá endurskoðað hvaða strik þetta setti í reikninginn eða hvaða magn kæmi þarna til sögunnar.

Ýmsar hugmyndir í þessa veru hafa verið á kreiki og maður rekst á þær oft á fundum við sjávarsíðuna allt niður í það að þetta eigi að vera bundið við allra minnstu skipin sem við mundum hafa kallað trillur og jafnvel að menn séu þá með í huga gömlu gerðina. Þetta eigi ekki að vera stórir hraðfrystibátar heldur séu hugmyndirnar kannski komnar út í svolitla rómantík, að reyna að endurvekja það sem í daglegu tali hefði verið kallaðar trillur eða minni mótorbátar. En ég segi fyrir mitt leyti að sú afstaða mín hefur ekki breyst að mér finnst sjálfsagt mál að hafa þetta með í umræðunni og til skoðunar því að það er óumdeilanlega ágalli á núverandi kerfi og býsna háskalegur að ekki verður sú endurnýjun og það uppeldi og þróun sem alla tíð hefur alltaf verið í íslenskum sjávarútvegi fram á síðustu ár að smábátaútgerðin er undirstöðutengingin við auðlindina í sjávarbyggðunum. Þar öðlast menn gjarnan sína fyrstu reynslu og sumarveiðar á litlum skipum upp við landið eru náttúrlega ákaflega góð og holl aðferð til þess og flestir sammála um að það séu vistvænustu veiðar sem hægt er að stunda með minnstum orkukostnaði og minnstri áhættu fyrir lífríkið hvað varðar brottkast eða aðra slíka hluti. En útfærsluna yrði að ræða um og skoða ef menn vildu gera einhverjar tilraunir í þessa veru sem ég skil raunar frumvarpið sem ákveðna hugmynd um, að gera þarna tilteknar tilraunir.

Vegna þess að hér er á dagskrá annað mál frá hv. þingmanni sem ég veit ekki hvort ég næ að vera viðstaddur umræðuna um vil ég bara segja að þar er öllu meira færst í fang, þ.e. að taka kerfið í heild sinni undir og innkalla allar veiðiheimildir úr núverandi kerfi og færa þær yfir á leigumarkað. Það er að sjálfsögðu ein aðferð sem oft hefur verið rædd. Hún hefur vissulega sína kosti en hún hefur líka sína galla því að í henni eru fólgnar ýmsar áhættur. Ég verð að segja að ég hef verið talsmaður annarra sjónarmiða, ekki þeirra að ekki eigi að reyna að lagfæra núverandi kerfi og komast út úr því á ábyrgan og yfirvegaðan hátt heldur kannski ekki síður að menn hafi þá lagt sæmilega niður fyrir sér hvað við eigi að taka. Ég hef meiri efasemdir og áhyggjur af því að setja allar veiðiheimildir á einn opinn leigumarkað. Hvað yrði þá um stöðu minni aðila, minni sjávarbyggða? Hvert yrði þeirra öryggi í slíku kerfi ef afl fjármagnsins í gegnum það að geta boðið í útleigðar veiðiheimildir réði þá miklu um það hvert þær lentu?

Ég kemst yfirleitt að sömu niðurstöðu sem er kannski ekkert óskaplega frumleg. Mönnum finnst að það yrði að byggja inn í framtíðarkerfið og það eigi að byggja inn í það eitthvert öryggi byggðanna og fólksins sem þar býr í formi einhverrar byggðatengingar a.m.k. hluta afnotaréttarins. En mér finnst það mál hins vegar tengjast öðru sem rétt er að nefna og það er spurningin um það hvenær menn ætla að manna sig upp í að fara í einhvers konar heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarfyrirkomulaginu og þeim lögum sem um það gilda. Því hafa menn ýtt á undan sér. Nú liggur þessi langa reynsla fyrir. Menn geta lesið í hana, kannað og rannsakað hvaða afleiðingar og áhrif kerfið hefur haft í byggðalegu tilliti hvað varðar afkomu í greininni, skuldsetningu hennar en síðast en ekki síst það sem mestu máli skiptir: Hefur kerfið skilað okkur þeim árangri sem ætlast var til í sambandi við uppbyggingu fiskstofnanna? Þar er því miður svarið nei. Staðan þar er ansi dapurleg og fjarri því að þau markmið sem lög um stjórn fiskveiða byggja á muni nást eða hafi náðst.

Með því er að sjálfsögðu ekki hægt að segja eða fullyrða að þar sé við fiskveiðistjórnarkerfið eitt að sakast. Það er margflókið samspil sem þar er á ferðinni, veiðarnar og hvernig þær eru stundaðar er að sjálfsögðu þáttur þar í sem ekkert verður undan dreginn. Ég mundi segja að þar bæri allt að sama brunni að auðvitað þurfa Alþingi og stjórnvöld að búa sig undir það mikla verkefni að fara í heildstæða endurskoðun á þessu fyrirkomulagi og lagaumgerð. Núverandi ríkisstjórn hefur náttúrlega afar skamman tíma til starfa og mun þurfa að forgangsraða mjög grimmt þeim verkefnum sem hún ræðst í. Þau snúa þar fyrst og fremst að björgunaraðgerðum á stuttum tíma í þágu heimila og atvinnulífs og lýðræðisumbótum og öðru slíku. Fráfarandi ríkisstjórn hafði það í stjórnarsáttmála sínum eða samstarfsgrundvelli að skipa ætti nefnd til að hefja úttekt á kerfinu, ef ég man rétt, og skoða það eitthvað nánar. Sú nefnd komst aldrei á laggirnar, sat þó ríkisstjórnin í rúmlega eitt og hálft ár. En krafturinn og áhuginn voru ekki meiri á þessu viðfangsefni en svo að það eina sem þar var heitið, að setja nefnd á laggirnar til að takast eitthvað á við þessi fiskveiðistjórnarmál, komst aldrei í gang, sú nefnd var aldrei skipuð. Þannig er nú það.

Eigum við ekki að segja að það bíði sem eitt af stórum verkefnum framtíðarinnar, nýs Alþingis og nýrrar ríkisstjórnar sem tekur til starfa síðla vors eða á vormánuðum að bak kosningum, að hafa þetta stóra viðfangsefni á dagskrá?