136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[16:41]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Nú erum við að fjalla um skemmtilegt mál sem er þess virði að tala mikið og lengi um. Ég ætla að byrja á því að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra um álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem kvað á um að óeðlilegt væri að úthluta gjafakvóta til eins aðila sem mætti fénýta síðan kvótann á öðrum eða þriðja aðila og eins varðandi bæturnar handa sjómönnunum sem fóru alla leið fyrir mannréttindanefnd með þetta mál. Er það ekki forgangsmál hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að fara í það mál að leiðrétta það sem brotið hefur verið á íslenskum sjómönnum, sérstaklega þessum tveimur sem fengið hafa úrskurð hjá mannréttindanefndinni? Það er mitt mat að það beri að gera. Og flokkur sem þykist vera mannréttindaflokkur — og kannski þykist það ekki, er það — sannar eiginlega í þessu máli hvort hann er alvörumannréttindaflokkur eða ekki, hvernig hann tekur á þessum mannréttindabrotum sem hafa verið gerð í íslenskum sjávarútvegi? Hann fær tækifæri til þess núna að sýna hver viljinn er í raun og það er ekki hægt að bera því við að of stuttur tími sé til að laga það. Það þarf einfaldlega að láta hæstv. fjármálaráðherra semja um bætur við þessa ágætu menn sem orðið hafa fyrir þessum skakkaföllum og hafa verið brotið mannréttindi á. Það eru tveir menn vestan af fjörðum og er sjálfsagt mál að semja við þá. Það væri þessari ríkisstjórn til mikils sóma að gera það, þótt stuttan tíma hafi. (Forseti hringir.) Ég skora á hæstv. ráðherra að gera það.