136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[16:45]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég neita því ekki að ég er bjartsýnni núna en ég hef kannski verið lengi og ég ber væntingar í brjósti til þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra láti þessi mál til sín taka. Ég verð að viðurkenna enn og aftur að ég er bjartsýnni.

Hvað varðar þetta frumvarp sem við erum að tala um er auðvitað hægt að setja á það 10 þús. tonna þak í þorski, það er hægt að setja helgarfrí inn í þetta, minnka bátana úr 30 tonnum niður í 15 tonn eða 12 eða 10. Það er ýmislegt hægt að gera en opna engu að síður fyrir nýliðun og í rauninni hjálpa til við það að virða mannréttindi. Vandamálið í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu í dag er að þar eru mannréttindabrot. Að opna þetta með einum eða öðrum hætti er hænufet í rétta átt til þess að gera mönnum mögulegt að komast inn í atvinnugreinina án þess að þurfa að borga fyrir aðgang að veiðiheimildum.

Ég treysti því að hæstv. sjávarútvegsráðherra leggi sig fram um að koma þessu í verk til þess að þetta geti orðið án þess að setja þjóðarskútuna á hausinn. Sjávarútvegur stendur mjög illa núna.

Ég veit ekki hvort sjávarútvegsráðherra getur verið með okkur hér áfram í dag en leigumarkaði á veiðiheimildum er hægt að skipta upp í landshluta, skipta eftir stærð á skipum og það er líka hægt að tryggja það þannig að þegar menn nýta veiðiheimildina, hvort sem það er sóknardagur, tonn eða kíló, borgi þeir (Forseti hringir.) eftir á.