136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[16:50]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekkert sérstakt til að bregðast við annað en það að ég heyri að hv. þingmaður og flutningsmaður er sér vel meðvitaður um að menn mundu kannski vilja setja inn í þetta ýmsar takmarkanir ef menn færu út í að gera einhverja tilraun á þessu sviði. Ég held hreinlega raunsætt talað að það væri algjör forsenda þess að menn sæju sér fært að leggja í það, það væri að fara í þetta mjög varlega og yfirvegað í fyrstunni. Mundu sjálfsagt ýmsir verða lítt hrifnir samt, ónefndir vinir okkar sem við þekkjum.

Auðvitað væri hægt að ganga lengra og hafa líka áskilnað um þetta hvað varðar vinnslu í landi. Það væri að mínu mati æskilegt að það væri tryggð dreifing á slíkri tilraun á byggðirnar við sjávarsíðuna þannig að þetta kæmi þá ekki síst, og kannski fyrst og fremst, til góða því sem hefðbundið hafa verið smábátaútgerðarstaðir og eiga náttúrlega margir hverjir um mjög sárt að binda. Að sjálfsögðu væri hægt að hugsa sér að fara í þetta með ýmsum slíkum takmörkunum sem mundu gera það að verkum, held ég, að mönnum þætti það fýsilegra en ella að gera einhverja slíka tilraun.

Ég geri ráð fyrir því að hv. flutningsmaður og aðrir átti sig á því að líklega bíður það betri tíma að takast á við þetta enda verða búnar að vera hér kosningar og væntanlega ný ríkisstjórn eða ríkisstjórn með endurnýjað umboð sest að völdum á nýjan leik, eigum við ekki að segja bara strax fyrir mánaðamót apríl/maí, og hún getur sett þetta á verkefnalista sinn ef hugur hennar stendur til þess.