136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[17:05]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þetta frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem þrír hv. þingmenn Frjálslynda flokksins flytja og hafa mælt fyrir er um margt gott. Markmið þess finnst mér vera mjög gott en það er að finna leið til þess að hægt sé að opna fyrir fiskveiðar meðfram ströndum landsins á minni bátum, trillum eða bátum af þeirri stærð og kallaðir voru trillur, innan þess fiskveiðistjórnarkerfis sem við búum við. Ekki er hægt að breyta því alveg í hvellinum þó svo að við fegin vildum, það þarf lagabreytingar til. Ég býst við að það muni nú eitthvað flækjast um en það skal ekki að standa á mér í þeim efnum.

Það er alveg gríðarlega mikilvægt að finna leið sem opnar fyrir nýliðun, fyrir það að ungt fólk komi heim í sjávarbyggðirnar á sumrin og vantar atvinnu, vantar að rækta tengingu sína við þær auðlindir sem þær byggðir hafa byggst á. Að hægt verði að opna fyrir svigrúmið og að unnt sé að stunda þar fiskveiðar á litlum bátum undir skilgreindum afmörkunum og takmörkunum.

Ég tek þess vegna heils hugar undir þau sjónarmið og markmið sem sett eru fram í þessu frumvarpi um leiðir til þess að opna fyrir smábátaveiði. Menn leiti frekar leiða til þess að setja þeim þær takmarkanir, bæði í tíma og stærð á bátum og veiðum, fjarlægð frá heimahöfn og þess háttar, setji mörk sem geta þjónað þessum markmiðum en samt verið ásættanleg.

Mér fannst notalegt að heyra hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sem talaði alveg eins og ég er uppalinn við, að það sé alveg sjálfsagt að leyfa ekki veiðar um helgar. Ég er uppalinn við sjóróðra og man að faðir minn reri aldrei á sunnudögum, alveg sama hversu kappsamur hann var við sjósókn. Það er því hægt að setja þessu ýmis mörk. Hv. þm. Grétar Mar Jónsson minntist á að gera stopp um hátíðir, um verslunarmannahelgi og aðrar slíkar hátíðir. En það er mjög mikilvægt að finna einhverja leið ef nokkur kostur er til þess að opna þarna á.

Þó að í frumvarpinu sé lagt til að þetta gildi um alla íslenska ríkisborgara sem hafi vélstjóra- og skipstjórnarréttindi og að jafnframt sé vísað til mannréttindasjónarmiða, sem ég virði og tel mikilvægt að við fylgjum eftir, mætti líka hugsa sér að taka þetta í áföngum. Þetta tengdist þannig fyrst og fremst þeim sjávarbyggðum sem eiga atvinnulega og samfélagslega mest undir.

Ég vitna til orða hæstv. sjávarútvegsráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, hér í umræðunni sem tók jákvætt í þetta. Hann er auðvitað ábyrgur fyrir því hvernig þetta megi ná fram að ganga. Mér fundust undirtektir hans vera fullar af skilningi eins og reyndar var von og vísa í þeim efnum.

En við getum gert fleira hvað þetta varðar. Ég minni á útflutning á óunnum fiski sem er fáránlegur. Þó að settar hafi verið einhverjar hömlur núna nýlega með breytingu á lögum um að hamla útflutningi á óunnum gámafiski er það samt opið og í rauninni í hendi ráðherra hvað gera skal. Sú staðreynd að á milli 50 þús. og 60 þús. tonn voru flutt út óunnin í gámum á fiskmarkaði til þess að vinna frekar erlendis segir okkur að þar er um að ræða afrakstur auðlindar okkar sem við gætum nýtt okkur miklu betur. Menn tala jafnvel um þúsundir starfa í íslenskum sjávarbyggðum sem mundu verða til ef þessi fiskur væri unninn innan lands eða að íslenskar fiskvinnslur ættu að minnsta kosti möguleika á því að kaupa hann og vinna.

Mér finnst að í þeirri stöðu sem við erum núna þegar við verðum að standa vörð um hvert starf, um verðmætaaukningu, verðmætasköpun og nýtingu auðlinda okkar í eigin þágu eins og sjávarauðlindarinnar eigum við að setja þau mörk að fiskur sem veiðist á Íslandsmiðum komi til vinnslu hér innan lands, auki verðmætasköpun og skapi störf. Mér fannst mjög dapurt að fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, skyldi þá ekki ganga skrefið til fulls og setja stopp á útfluttan gámafisk. Við munum hvetja sjávarútvegsráðherra okkar nú til að kanna með hvaða hætti hægt er að koma til móts við þau sjónarmið og kröfu um að fiskur sem veiðist á Íslandsmiðum verði unninn hér innan lands.

Ég vil síðan minna á okkar ágæta frumvarp sem við fluttum á síðasta þingi, við hv. þm. Björn Valur Gíslason varaþingmaður, sá sem hér stendur og Atli Gíslason, um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða þar sem við lögðum til að farið væri í heildarendurskoðun á þeim. Sett væri sólarlagsákvæði á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sem kæmi til framkvæmda eftir nokkur ár. Þá væri komið nýtt fiskveiðistjórnarkerfi sem tæki mið af þeim atriðum sem lúta að byggðatengingu, sjálfbærri nýtingu og að fiskurinn verði unninn hér innan lands o.s.frv. (Gripið fram í.)

Þingmaðurinn styður það meginmarkmiðið sem frumvarpið leggur í að kannaðar verði allar leiðir til að opna fyrir þessa smábátaveiði. Þau atriði sem þarna eru til um afmörkun og tillögur get ég ekkert sagt um en markmiðið, að leita skuli allra leiða til að nálgast þetta styð ég, svo að það sé alveg klárt.

Ég vil líka minna á að við, hv. þm. Björn Valur Gíslason, Atli Gíslason og ég, höfum einnig flutt tillögur um að við nálgumst fiskveiðarnar á grunni náttúrulega sjálfbærrar þróunar en jafnframt að þeir sem búa við sjávarsíðuna, stunda sjósókn og nýta þessar auðlindir fái ábyrgð í ræktun og verndun sjávarauðlindarinnar.

Það hefur gefist mjög vel í landgræðslunni við endurheimt landgæða bæði í byggð og í óbyggðum verkefnið bændur græða landið þar sem bændur eru hluti af „prógrammi“ þar sem verið er að rækta, vernda og nýta land. Nákvæmlega sama hugarfar finnst mér að við eigum að rækta og gefa möguleika meðal sjómanna og þeirra sem búa við sjávarsíðuna, að sjómenn græði hafið. Að sjálfsögðu á að færa til þeirra aftur auðlindina meðfram ströndum landsins sem tekin hefur verið frá þeim.

Ég sé fyrir mér að slíkt tilraunaverkefni fari í gang sem annars vegar tengist því að efla atvinnu í minni sjávarbyggðum og hins vegar því verkefni að sjómenn græði hafið. Ég sé að hér kemur vörpulegur þingmaður, hv. þm. Árni Johnsen, og sé ekki annað en að hann ljómi hreinlega undir ræðu minni. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Við höfum oft átt góða samleið, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, með þingmönnum Frjálslynda flokksins í mörgum málum sem lúta að sjávarútvegsmálum og mannréttindamálum í sjávarútvegi. Þau sjónarmið og hugmyndir sem þarna eru lögð fram um að finna leið til að smærri bátar í sjávarbyggðunum geti á einhvern hátt stundað sumarveiðar á fiski undan ströndinni finnst mér að eigi að skoða mjög vandlega og athuga hvort hægt sé að koma þeim að einhverju leyti í framkvæmd.