136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[17:21]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ef menn meina eitthvað með því að tala um græða hafið þá væri í sjálfu sér það fyrsta sem þeir ættu að gera að banna togveiðar á Íslandsmiðum. (Gripið fram í.) Við græðum á hafinu og höfum alltaf gert það og við höfum byggt okkar þjóðfélag upp á hafinu eða réttara sagt á því sem hefur komið upp úr hafinu, fiskinum í sjónum sem er sameign þjóðarinnar. Hv. þm. Árni Johnsen ætti að vita að á því höfum við byggt upp Ísland. (ÁJ: Og veit manna best.) En við höfum — nei, hv. þingmaður veit það ekki því hann telur að það sé best að láta einhverja fáeina útvalda sægreifa eiga veiðiheimildirnar (Gripið fram í.) og þeir hafa farið með þær með þeim hætti að það er enginn sómi af því. Ef Vinstri grænir meina eitthvað með því að þeir vilji græða hafið þá bönnuðu þeir öll dregin veiðarfæri. Það er ekkert öðruvísi. Ég hef ekki heyrt eða séð þá flytja tillögur um það. Ef einhver meining væri í þeirra gjörðum og vinnubrögðum mundu þeir gera það. En þeir gera það ekki enda væri það ekki skynsamlegt. Við þurfum að nota togveiðarfæri til að nýta margar tegundir eins og rækju, humar, grálúðu og fleiri tegundir, alla karfastofnana. Við þurfum við togveiðarfæri til að nýta það. Að tala sýknt og heilagt um umhverfisvænar fiskveiðar en gera svo engar athugasemdir við togveiðar, það gengur ekki upp.

Ég vil líka minna á að í sjávarútvegsmálum lögðu Vinstri grænir til og samþykktu tillögu um að fella niður allt veiðileyfagjald í öllum sjávarútvegi. Hv. þm. Jón Bjarnason og félagar hans hafa ekki alltaf verið til fyrirmyndar í afgreiðslu mála hér er varða sjávarútveg.