136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[17:26]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir, þótt stutt sé, er í raun tekist á um ákveðin grundvallarsjónarmið. Ákveðin grundvallarspurning liggur hér undir sem snýr að stjórn fiskveiða.

Ég get í sjálfu sér tekið undir margt í þeim áhyggjum sem hér hafa verið reifaðar í dag hvað varðar stöðu sjávarbyggðanna og möguleika manna til að nýta hafið sem best sjálfum sér og þjóðinni til heilla. Margt af því var ágætlega sagt en margt einnig þannig vaxið að ég get ekki verið sammála því. Í grunninn er þetta spurning um það hvort við eigum að hafa stjórnkerfi fiskveiða þannig að aðgangur sé opinn eða ekki. Ég verð að segja eins og er að mjög erfitt er að sjá fyrir sér kerfi sem bæði er með lokuðum aðgangi og opnum.

Reynsla okkar Íslendinga af opnum kerfum, þ.e. opnum aðgangi að fiskveiðiauðlindinni, er mjög slæm. Mér finnst stundum eins og menn hafi gleymt því hvernig ástand mála var fyrir 1983–1984, þegar við settum kvótakerfið á, hvers vegna það stjórnkerfi var tekið upp. Vandinn var sá að við vorum í öngstræti. Flotinn var allt of stór, skipin voru allt of mörg og allt of mörg frystihús voru að vinna allt of fáa fiska, sá var vandinn. Við fórum úr skrapdagakerfinu, þar sem sóknardögunum fækkaði jafnt og þétt, yfir í kerfi sem byggðist á séreignarrétti.

Um það höfum við deilt árum saman hvort það kerfi var réttlátt eða ranglátt og sýnist sitt hverjum í því máli. Rök hafa verið færð fyrir báðum skoðunum og í sjálfu sér erum við ekki að ræða þann þátt málsins hér. Við erum einungis að ræða það hvort skynsamlegt sé að opna þetta kerfi upp á nýtt. Ég bendi á að það er ekki svo langt síðan við vorum með opið kerfi fyrir smábátana. Við vorum með einhvers konar glufu í kerfinu þar sem menn gátu komist fram hjá kvótakerfinu og inn í smábátaveiðarnar. Við munum alveg hver sú þróun var, gríðarleg fjölgun þeirra báta, meiri og meiri afli sem sá bátafloti tók af heildaraflanum. Menn eru þar með öðrum orðum að víkja frá þeirri grunnhugsun sem liggur að baki aflamarkskerfinu, sem er sú að hver og einn á sitt aflamark og sína prósentu í heildaraflanum. Einn af stærstu kostunum við það kerfi er að þegar skera þarf niður heildarafla, ef menn eru sannfærðir um að draga þurfi úr veiðum á Íslandsmiðum, þá er allt annað að sannfæra menn um að taka á sig tímabundna skerðingu vegna þess að menn hafa trú á því að þegar aflinn er aukinn síðar meir muni þeir njóta þess. Það er algjört grundvallaratriði í þessu máli öllu.

Þeir sem fylgjast með umræðum um fiskveiðar hjá Evrópusambandinu og í ríkjum Evrópusambandsins vita að eitt það erfiðasta er einmitt að tengja hagsmuni útgerðanna og hagsmuni fiskveiðibyggðanna við þær ákvarðanir sem teknar eru um að draga úr heildarafla. Menn hafa auðvitað áhyggjur af því að aflinn verði skertur og þeir muni aldrei njóta þess ef hann verður aukinn. Vandinn við þessa tillögu er sú hugmynd að við eigum að taka ákveðið magn af þeim aukaafla sem við höfum mögulega úr að spila og setja hann til annarra en þeirra sem eiga aflaheimildirnar. Þeir sem eru skornir niður eiga ekki möguleika á að taka upp þá aukningu sem greinilega er talin möguleg samkvæmt frumvarpinu.

Vissulega skipta möguleikar manna til að stunda sjóinn og staða sjávarbyggðanna máli í þessu öllu saman. Það hjálpaði til að leyfileg heildarveiði var aukin nú á dögunum þegar fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, ákvað að auka þorskveiðina. Það skipti máli og var heilmikið innlegg í möguleika okkar til að takast á við þá erfiðleika sem fram undan eru. Ef núverandi eigendur aflaheimildanna eru að auka veiði sína þá hefur það ekki bara áhrif fyrir þá heldur líka fyrir fiskvinnsluna o.s.frv., með öðrum orðum þá verða til ný störf, fleiri störf, við það að við aukum veiðina þó að veitt sé af þeim sem nú þegar hafa heimildirnar. Ég get alveg tekið undir það að þó að veiðin væri aukin — við skulum segja um 10 þús. tonn eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson nefndi — þá mundi það leiða til þess að störfin yrðu fleiri, það liggur í augum uppi. En ég segi og fullyrði það sama að ef það væri aukið um þessi 10 þús. tonn umfram það sem aukið hefur verið nú þegar þá mundi það jafnframt hafa sömu áhrif.

Reyndar fannst mér það nokkuð athyglisvert, sem fram kom í máli hv. þm. Grétars Mars Jónssonar, hvað varðaði einmitt þessi 10 þús. tonn sem hann nefndi, þ.e. að setja þak á þessar veiðar. Það kemur fram í málflutningi flutningsmanna tillögunnar að þeir átta sig á því að verið er að opna þarna gat sem mjög erfitt getur verið að hafa nokkra stjórn á. Segjum svo að við færum þá leiðina að segja 10 þús. tonn og segjum að við leyfum ekki meiri veiðar en bara 10 þús. tonn með þessum hætti. Hver ætlar síðan þá að úthluta þeim og hvernig á að úthluta þeim ef fleiri bátar verða til að veiða? Og þeir geta veitt töluvert meira en þessi 10 þús. tonn af því að það er hægt að veiða ansi mikið á 30 tonna bátum, þetta eru öflug skip, harðduglegir veiðimenn. Ef við setjum t.d. þessi efri mörk sem hv. þingmaður nefndi og erum í þeirri stöðu að komnir eru það margir bátar að við erum farnir að fara fram úr, hvernig á þá að halda á þeim málum? Mundum við fara þá leiðina að segja að hver maður megi bara sækja svo og svo marga daga og halda svo áfram og þá fjölgar skipunum og þá þarf að fækka dögunum sem má nota þau? Eða mundum við segja: Ja, við ætlum bara að búa til nýtt kvótakerfi? Það eru 10 þús. tonn í pottinum fyrir þessa sjómenn. Við ætlum að úthluta hverjum og einum ákveðnum tonnafjölda í ljósi reynslu o.s.frv. Bara um leið og menn eru komnir inn í þetta eru þeir komnir í þann vanda sem við höfum verið að reyna að leysa vegna fiskveiða á Íslandsmiðum sem er að koma í veg fyrir offjárfestingu af því að við sem samfélag getum ekki haft það þannig að offjárfesting verði í íslenskum fiskveiðum, hvorki hvað varðar fiskvinnsluna né fiskiskipin.

Ég held að allir þeir sem hér eru inni, og reyndar margir sem ekki eru inni en ættu kannski að vera hér að fylgjast með þessum umræðum, hafi fulla samúð með sjávarbyggðunum hringinn í kringum landið, hvað stöðu þeirra varðar. En hver er vandi þeirra byggða? Hann er ekki síst sá að í staðinn fyrir að við séum að veiða kringum 300 þús. tonn á ári þá höfum við verið að fara niður í 130 þús. tonn. Það þýðir að í þeim byggðum sem byggja sitt á þorskveiðum er staðan erfið, það er hrun í öllum tekjum. Ég er í hópi þeirra sem hafa haft miklar efasemdir og áhyggjur af þeirri fiskveiðiráðgjöf sem við höfum búið við. Ég hef talið að við þyrftum að gera róttækar breytingar á því hvernig við ákveðum heildarveiði á Íslandsmiðum.

Ein af þeim tillögum sem ég hef talað fyrir er sú að við felum Háskóla Íslands að setja fram tillögu um heildarveiði samhliða tillögum Hafrannsóknastofnunar, veitum háskólanum fullan aðgang að öllum gögnum Hafrannsóknstofnunar þannig að fram komi tvær tillögur og umræða skapist, átök verði, vísindalegt debatt um mismunandi aðferðir, mismunandi niðurstöður. Þetta er auðvitað stóri vandinn. Margt annað má svo sem tína til en að sjálfsögðu geri ég, eins og allir aðrir, mér grein fyrir því að vandi er fólginn í því og heilmikil hætta fyrir sjávarbyggðirnar að menn fari burt með aflaheimildirnar úr þorpunum, þá standa menn illa eftir. Ég þekki það úr byggð sem er mér mjög nátengd að slík staða kom upp og hefur valdið heilmiklum vandræðum. Vandræðin verða minni ef menn hefðu meiri heildarafla, það væri einfaldlega meira til skiptanna. En eins og ég segi, það snýr fullkomlega að því hvernig við stýrum veiðinni og hvernig við vinnum ráðgjöf okkar.

Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að því miður hafi umræðan um kvótakerfið, og það er spurning um hvort ríkið eigi að eiga allar aflaheimildirnar eða hvort einstaklingarnir eigi að eiga þær, tafið fyrir því að við þokuðum áfram vitrænni umræðu um það hvernig best sé að haga þessum fiskveiðum. Það hefur verið þannig að annaðhvort hafa menn bara verið kvótasinnar, og þar með staðið með Hafrannsóknastofnun, eða bara viljað ríkiseignina og ekkert var þar á milli. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort það sé gefið mál að besta leiðin til að skilgreina séreignarréttinn, af því að ég er algerlega þeirrar skoðunar að við verðum að hafa séreignarrétt á veiðiheimildunum, á þann veg að mynda hann með kílóum, þ.e. að andlag eignarréttarins sé kíló, hvort það sé skynsamlegra eða hvort það væri þess virði að skoða nánar að við hefðum andlagið sóknareiningu eins og ég veit að margir hér í salnum hafa velt fyrir sér. Það hefur sína galla, það opnar á aukafjárfestingu í greininni sem gæti verið til mikillar bölvunar og mikilla vandræða en um leið hefur það stóra kosti sem felast m.a. í því að brottkast mundi minnka og það gæti verið í betra jafnvægi við náttúruna sjálfa. Það eru ýmsir þættir sem við eigum að ræða.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að við séum komin á einhvern endapunkt í því hvernig við eigum að stjórna fiskveiðum á Íslandi. En ég er þeirrar skoðunar að það verði að vera þannig að við höfum heildarkerfi og við verðum að vera klár á því hvort við viljum hafa séreignarréttarkerfi, hvort við viljum hafa lokað kerfi, þ.e. að það byggist á þessum eignarrétti, eða hvort það eigi að vera opið. Ég held að við getum ekki haft hvort tveggja. Ég held að það sé í það minnsta mjög erfitt. Og þegar menn velta fyrir sér nálægð byggðanna við fiskimiðin þá mundi séreignarréttarkerfi sem byggðist á sóknareiningum sennilega leiða til þess að slíkar byggðir hefðu meira forskot en þær sem liggja fjær miðunum.

Hitt er það reyndar í þessari umræðu að nokkuð oft hefur verið minnst á réttindi þeirra sem búa við hafið, búa við ströndina, en mikill meiri hluti Íslendinga býr þannig. Ég lít á Reykjavík, mitt kjördæmi, sem útgerðarbæ. Við búum við hafið og þá fara menn að velta fyrir sér þeim réttindum öllum. Ég geri mér grein fyrir því að í tillögunni sem hér liggur fyrir er miðað við að menn hafi skipstjórnarréttindi, væntanlega hið svokallaða gamla pungapróf. Sennilega eru fleiri með það en mann grunar. Ég held meira að segja að einhvern tímann hafi ég tekið þau réttindi þó að ég mundi ekki treysta sjálfum mér til að fara á sjóinn að veiða, ég held að ég sé of sjóveikur til að geta stundað slíkt af einhverju viti. En ég er sannfærður um að ef við opnum með þessum hætti yrði reynslan ekkert önnur en hún var á sínum tíma þegar við vorum með gatið sem, ef ég man rétt, var niður í 6 tonn, nákvæmlega sama reynsla. Öll þau vandamál sem komu þá upp mundu koma upp hvað varðar þessa tillögu.

Ég held að við ættum frekar — og auðvitað dettur ekki út sú deila sem er um það hvort við eigum að hafa kerfi sem byggist á séreignarrétti eða opinn aðgang. En ef við erum með séreignarkerfið, ef við erum með lokaðan aðgang, sem ég tel að við verðum að hafa, þá er nær að við ræðum einmitt þetta meira. Getum við nálgast þetta viðfangsefni með eitthvað öðrum hætti en það að miða við kílóin? Er hægt að prófa sig áfram með einhvers konar sóknarkerfi sem er þá byggt á séreignarrétti útgerðarmanna eða eitthvað annað slíkt? Ég held að það væri nær að horfa í þá áttina frekar en að fara þá leið sem hér er farin.

Að lokum það sem varðar mannréttindin. Ég hef skilið það sem svo að það mál standi þannig að íslenska ríkið hafi sent athugasemdir sínar við niðurstöðu mannréttindanefndarinnar og þær hafi síðan verið sendar til málsaðila og raunverulega sé því ekki komin endanleg niðurstaða í það mál allt. Ég tel því — svo að ég beri blak af Vinstri grænum og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem í frístundum er einnig fjármálaráðherra — að það mál hljóti allt að ganga sinn gang og ganga fram með eðlilegum hætti. Ég tel ekki að þetta frumvarp eigi að hreyfa neitt þeirri málsmeðferð.