136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[17:42]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var einmitt heila málið, þetta með 10 þús. tonnin, pottinn, að það yrði stöðvað um leið og sá pottur væri tæmdur. Ef sú aðferð væri tekin upp og ef það færi þannig að hv. þm. Grétar Mar Jónsson yrði t.d. sjávarútvegsráðherra og bæri ábyrgð á þessu máli — yrði hæstv. ráðherra Grétar Mar Jónsson — mundi ég ráðleggja verðandi ráðherra að kaupa sér fallbyssu af því að það er þá eina leiðin sem hann hefur til að leysa þetta mál. Það yrði þá þannig gert, eins og menn gerðu í lúðuveiði við Kanada, að hleypt yrði af fallbyssuskoti. Menn æða þá út á sjó, veiða í kappi vegna þess að ef kerfið leyfir það að menn veiði 10 þús. tonn og fjölga bátunum meira og meira þá fara af stað ólympískar kappveiðar. Það er ekkert öðruvísi vegna þess að ef þú sækir ekki fast, ef þú ert ekki með nægilega stóran bát, ef þú ert ekki með á fullu, ef þú kaupir ekki annan bát eða stofnar lítið útgerðarfyrirtæki — t.d. ég og hv. þingmaður sem vitum að ef einhverjir aðrir hv. þingmenn stofna sambærilegt fyrirtæki og fara að keppa við okkur þá borgar sig að kaupa annan bát og auka getuna af því að aðgangur er opinn. Ef við gerum það ekki þá gera það einhverjir aðrir og þannig gengur það fram að sóknargetan eykst, slagurinn harðnar og að lokum verður það þannig að menn hleypa af stað fallbyssunni og úr verða þessar ólympísku veiðar. Hvaða afleiðingar hafa þær? Þær hafa þær afleiðingar að allt skipulag vinnslunnar, allt skipulag þess að nýta auðlindina, hrynur. Ég man hvernig það var að vinna í frystihúsi meðan skrapdagakerfið var. Ég man hvernig það var þegar komið var á vörubílum og þorski var hellt á gólfið af því að frystihúsið hafði ekki undan og við vorum að spyrða fisk fyrir Ítalíu. Nákvæmlega það mundi gerast í þessu.

Ég er ekki að mæla með einhvers konar sóknarmarkskerfi, til að taka af öll tvímæli um það. Ég er að mæla með því að menn skoði þá möguleika sem geta fylgt því að skilgreina eignarréttinn, skilgreina sóknarréttinn, ekki bara með kílóum heldur líka með sóknargetunni. Það er flókið mál og tæki mörg ár að vinna úr því en ég held að við ættum að fara að skoða það.