136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[17:46]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Margt forvitnilegt kemur fram í þessu frumvarpi og er sjálfsagt að skoða það jákvætt. Hitt er annað að menn þurfa að gæta þess að búa ekki til enn eitt nýtt kerfi sem menn fara að spila með. Það hefur verið talsvert um það, sérstaklega í kringum smábátaflota landsins, og það er vandmeðfarið. Það hefur verið á kostnað t.d. vertíðarbátanna, einyrkjanna sem hafa að mörgu leyti verið burðarás í mörgum þáttum sjávarplássanna.

Árið 1991 var lögum breytt og þar var sérstaklega kveðið á um að taka ætti á þróun mála varðandi einyrkjana. Það hefur aldrei verið gert, það var sýndarmennska fyrir nokkrum árum þegar þetta mál var afgreitt á tveimur klukkutímum í sjávarútvegsráðuneytinu. En þetta þarf að gera. Einyrkjarnir í sjávarplássum landsins hafa verið hvað mestur burðarásinn í þeim byggðum og spornað gegn því að aflinn færi á fárra manna hendur og þess vegna þarf að huga að þessu.

Það var eitt sem hv. þm. Illugi Gunnarsson sagði sem ég er ekki sammála honum um, að of margir bátar hefðu verið að veiða og frystihúsin hefðu verið of mörg. Það má til sanns vegar færa en það er kannski önnur eðlilegri skýring því að aðstæður hafa breyst gífurlega og mætti fjalla margvíslega um það. Það er þannig að á sama tíma og ferskfiskútflutningur jókst dróst saman í einu frystihúsinu af öðru. Auðvitað má segja að heildarflotinn hafi verið of stór en eðli veiðanna samkvæmt hlýtur að vera talsvert svigrúm í þessum efnum og á að vera og það er borð fyrir báru (Forseti hringir.) að það sé frekar í stærri kantinum en minni. Það má því segja að þetta sé útfærsluatriði.