136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[17:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má til sanns vegar færa að flotinn þarf að vera þannig upp byggður að hann geti tekið á móti aflatoppum og nýtt auðlindina. Þar komum við aftur að umræðunni um hvort við eigum að miða eignarréttinn við sóknareiningar eða kíló en vandinn við kílóanálgunina er auðvitað sá að þar miðum við bara sóknargetuna, við ákveðið heildarmagn og hreyfum það ekkert til eða frá.

Það sem ég átti við og var að vísa til hvað varðar heildarsóknargetuna og fjölda fiskvinnsluhúsanna, þá voru t.d. í því ágæta dagblaði Morgunblaðinu árum saman skrifaðir leiðarar þar sem farið var rækilega yfir það hve mikil sóun það væri fyrir íslenskt samfélag hversu mikil sóknargetan væri, að allt of mörg skip væru að elta of fáa fiska. Þetta þýddi að staða sjávarútvegsins var mjög veik. Eða erum við kannski búin að gleyma því þegar þáverandi ríkisstjórn undir forustu Steingríms Hermannssonar, þáverandi forsætisráðherra, þurfti að fara í bjargráðasjóðina, þegar dæla þurfti skattpeningum inn í greinina? (GMJ: Hver er staðan í dag?) Það er ekki verið að dæla skattpeningum inn í greinina, hv. þingmaður. (GMJ: Jú.) Nei. Árum saman var staðan slík að setja þurfti skattpeninga, sem frekar áttu að fara í skóla, heilbrigðisþjónustu, þjónustu við aldraða o.s.frv., inn í greinina. Það var vandamálið sem menn stóðu frammi fyrir, biðstofur ráðherranna voru gjarnan fullar, af hverjum? Útgerðarmönnum sem voru að leita eftir fyrirgreiðslu fyrir sig og fyrirtæki sín. Það var vandinn sem við var að fást hér á árum áður og menn láta stundum eins og að sá vandi hafi bara leyst sig sjálfur, að það hafi bara orðið eitthvert kraftaverk með það. Nei, svo var ekki, það sem við hins vegar breyttum í grundvallaratriðum var hvernig við umgengumst auðlindina.

Enn og aftur segi ég: Það er ekki þar með sagt að við Íslendingar höfum fundið upp besta fiskveiðistjórnarkerfi í heima eða hið endanlega, langt í frá. Það kerfi sem við búum við hefur ýmsa galla og ég hef rætt þá hérna og margir í þessum sal hafa gert það líka (Forseti hringir.) og það er það sem við eigum að reyna að sníða af því en við eigum ekki hverfa frá því grundvallarsjónarmiði sem hér er um að ræða.