136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[18:19]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er rétt. Það var ekki neinn vilji í síðustu ríkisstjórn til að gera breytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Meira að segja þegar verið var að skera niður veiðileyfagjaldið fyrir rúmu ári síðan átti það að vera 1.100 millj. en var fært niður í 400 millj. Þá fylgdu samfylkingarmenn Sjálfstæðisflokknum eftir í því. Það er svona þegar er verið að búa til ríkisstjórn þá er það dálítið sérkennilegt að annar flokkurinn skuli fá allt sitt fram en hinn ekki í ákveðnum málum.

Maður hélt að flokkar reyndu að mætast einhvers staðar á miðri leið í svona stórum málum eins og sjávarútvegsmál eru eða réttara sagt fiskveiðistjórnarkerfið, jafnumdeilt og það er. En ég veit að það er vilji innan Samfylkingar og það er vilji innan Vinstri grænna til að gera breytingar. Því er nú verr og miður að enginn vilji er innan Framsóknarflokksins og hefur ekki verið. Framsóknarflokkurinn hefur verið harðastur í því ásamt Sjálfstæðisflokknum að viðhalda óbreyttu fiskveiðistjórnarkerfi. (BJJ: Tali nú hver fyrir sig.) Það talar ekki hver fyrir sig í því efni. Höfundur kvótakerfisins heitir Halldór Ásgrímsson. (Gripið fram í.) Hann og hans fólk vörðu fiskveiðistjórnarkerfið, höfðu persónulega hagsmuni af því að verja það og urðu íslenskir auðmenn út á það. (BJJ: Ómálefnalegt.) Og fleiri aðilar hafa varið þetta kerfi út af eigin hagsmunum.

Við höfum líka horft upp á þingmenn í salnum sem eru strengjabrúður sægreifanna og hafa verið að þjónka þá, kannski af eðlilegum ástæðum vegna þess að þeir hafa borgað fyrir þá kosningabaráttu, prófkjörsbaráttu og kosningabaráttu. Við sjáum bæði þingmenn og ráðherra hjá Sjálfstæðisflokki (Forseti hringir.) og Framsóknarflokki sem hafa nánast verið strengjabrúður þessara manna út á peninga. (Forseti hringir.)