136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

athugasemdir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

[13:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Hér á þinginu í gær greindi hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, frá því að hún vissi ekki til þess að forsætisráðuneytinu eða ríkisstjórninni hefði borist umsögn eða athugasemdir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um seðlabankafrumvarpið. Í viðskiptanefnd í morgun greindu embættismenn ráðuneytisins frá því að slíkar athugasemdir hefðu borist um helgina en þeir hefðu ekki upplýst forsætisráðherra um það fyrr en að loknum umræðum í þinginu í gær.

Í tilefni af þessum fundi viðskiptanefndar langar mig líka að nefna að embættismenn forsætisráðuneytisins fullyrtu þar að þessar athugasemdir væru bundnar trúnaði samkvæmt ósk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég verð reyndar að geta þess að mér finnst nær óskiljanlegt að einhver trúnaður þurfi að ríkja um þessar athugasemdir og að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi eitthvað á móti því að þingið fái aðgang að þessum upplýsingum, enda hefur málið verið í höndum þingsins frá því fyrir helgi en ekki ráðuneytisins. Athugasemdir um efnisleg atriði í frumvarpinu hljóta því að hafa átt erindi til þingsins en ekki til forsætisráðuneytisins.

Mig langar af þessu tilefni að spyrja formann viðskiptanefndar, hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, hvort hún sem formaður nefndarinnar muni beita sér fyrir því að nefndin fái þessar upplýsingar, hvort ekki sé rétt að kalla eftir öllum samskiptum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og forsætisráðuneytisins um þessi mál og hvort ekki sé tilvalið að sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem koma hingað til lands eftir nokkra daga, mæti á fund nefndarinnar til að upplýsa nánar um þessi atriði.