136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

athugasemdir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

[13:41]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég verð að lýsa því í upphafi að mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að hv. þm. Birgir Ármannsson spyrji hvort hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hyggist beita sér fyrir því að gögn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, vegna frumvarps ríkisstjórnarinnar um Seðlabanka Íslands, verði lögð fram í þinginu. Það er sjálfsagt og ekki síst í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra var spurður að því hvort formleg eða óformleg umsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefði borist forsætisráðuneytinu í gær. Hæstv. forsætisráðherra neitaði að svara og neitaði að svara spurningum þingmanna um það hvort þessi gögn yrðu lögð fram í þinginu þannig að það er ágætt að komið sé í ljós að þessi gögn verði lögð fram og hv. þingmaður muni beita sér fyrir því vegna þess að auðvitað er mjög margt óljóst í málinu.

Þegar þau gögn sem við höfum þegar í höndunum eru lesin virðist óljóst hvort það var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sjálfur sem hafði frumkvæði að því að koma athugasemdum á framfæri við forsætisráðuneytið út af frumvarpinu eða hvort embættismenn í ráðuneytinu leituðu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um athugasemdir við frumvarpið. Við verðum að fá að vita þetta, við sem eigum að fjalla um málið.

Ég er hins vegar ósammála hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um það að málið sé eitthvað skondið, að það sé eitthvað fyndið við það að við þingmenn á Alþingi óskum eftir því að fá upplýsingar um sjálfsögð atriði eins og athugasemdir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við höfum líka óskað eftir því að fá að vita til hvaða sérfræðinga ríkisstjórnin leitaði við samningu frumvarpsins sem á að vera þáttur í því að endurreisa fjármálakerfið. (Forseti hringir.) Þeim upplýsingum hefur einhverra hluta vegna verið neitað af hálfu hæstv. forsætisráðherra. Þetta er ekki sú opna og gagnsæja stjórnsýsla sem þeir flokkar sem mynda ríkisstjórn hafa talað fyrir, forseti góður.