136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

athugasemdir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

[13:50]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að þessi umræða er afar undarleg. Í viðskiptanefnd í morgun var farið ágætlega yfir þetta og það var ákveðið að kalla eftir þessari umsögn úr því að forsætisráðuneytið væri að kalla eftir formlegri umsögn, og það er ákveðið að reyna að kalla það inn í nefndina. Í nefndinni fór hins vegar fram umræða um hvort það væri eðlilegt við vinnslu lagafrumvarpa að erlendir aðilar veittu umsögn um íslensk lög og það var ágætisumræða um það. Það þykir ekki — a.m.k. rámaði menn ekki í hefð eða að það hefði gerst áður en það var alla vega enginn sem mælti því í mót að það yrði gert. Þetta fór fram í umræðunni í morgun og engin ástæða til þess að reyna að draga það fram eða varpa því upp að hér sé einhver leynd.

Þetta verður enn undarlegra í því ljósi að í a.m.k. tíu ár ef ekki fimmtán, hefur Sjálfstæðisflokkurinn og ráðherrar hans — og þar gekk nú lengst á sínum tíma fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson — haldið því fram, allan þennan tíma að þingmenn hafi ekki meiri aðgang að upplýsingum en sem kveðið er á um í upplýsingalögum. Þannig er það. Ég hef alltaf mótmælt þessari túlkun. Hins vegar er mjög athyglisvert og að mörgu leyti gaman og skemmtilegt að sjá Sjálfstæðisflokkinn allt í einu nú snúast gjörsamlega á haus í öðru hlutverki og tala á allt annan hátt en hann hefur gert í einn og hálfan eða tvo áratugi. Það er kannski eitthvað sem væri ágætt að fá skýringar á.

Um þetta mál hvílir engin leynd og það verður tekið í gegn eins og vera ber og unnið á tiltekinn hátt en spurningin er þessi: Á meðan málið er til meðferðar í þingnefnd, af hverju er verið að eyða tíma þingsins í opinni umræðu til þess að klára þetta? Vegna þess að það er auðvelt (Forseti hringir.) að klára þetta í þingnefnd. Það er augljóst að hér er einhver mjög undarlegur ásetningur að baki enda (Forseti hringir.) kom það fram í nefndinni í morgun að langlíklegast (Forseti hringir.) er að Seðlabankinn sjálfur hafi (Forseti hringir.) óskað eftir þessum upplýsingum og það er athyglisvert að hv. þm. (Forseti hringir.) Birgir Ármannsson hafi fengið upplýsingar um það. (Gripið fram í.)