136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

athugasemdir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

[13:57]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Mér þykir leitt að slíta þessari merku umræðu og kennslustund í því hver fer með löggjafarvald í landinu en mig langar til að beina orðum mínum til formanns utanríkismálanefndar, hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar.

Í tíð fyrri ríkisstjórnar fór mikið fyrir skoðun Samfylkingarinnar um nauðsyn aðildar að Evrópusambandinu og oftlega var þess beinlínis krafist að forustumenn ríkisstjórnarinnar hefðu þegar forgöngu um það að sækja um aðild að þessu ríkjasambandi. Í hugum heitra ofsatrúarmanna úr röðum Samfylkingarinnar kom ekkert annað til greina en Evrópusambandið og ekki varð krafan minni eftir fall bankanna nú í haust. Í því skipti auðvitað engu máli að hinn stjórnarflokkurinn hafði allt aðra skoðun á málinu og flokkarnir hefðu komið sér saman um ákveðið verklag í sáttmála sínum. (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn gat bara lufsast til þess að breyta stefnu sinni, þessari vitlausu stefnu sinni, (Gripið fram í.) og halda af stað í trúboðið. (Forseti hringir.) Sú var virðing fyrir lýðræðislegri umræðu og samræðu af hálfu Samfylkingarinnar.

Við slit ríkisstjórnarinnar var Evrópusambandið vandamálið, það var m.a. tiltekið sem dæmi um að Sjálfstæðisflokkur drægi lappirnar í því að taka upp stefnu Samfylkingarinnar. Nú ber hins vegar svo við að samfylkingarmenn koma hver á eftir öðrum og segja að Evrópumálin séu í langtum betri farvegi í minnihlutaríkisstjórninni með Vinstri grænum, nú sé loksins farið að þokast í átt til Evrópusambandsins. (Gripið fram í.) Þetta hefur m.a. komið fram hjá hæstv. forsætisráðherra.

Það hefur reyndar alveg farið fram hjá mér að stefna Vinstri grænna í þessu máli hafi breyst. Þess vegna er mjög forvitnilegt fyrir mig að vita hvaða skoðun formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, hefur á málinu um leið og ég vil óska honum góðs gengis í sínum störfum. Vill hv. þingmaður að við förum í aðildarviðræður að Evrópusambandinu eins og samstarfsflokkur hans telur óumflýjanlegt? (Gripið fram í.)