136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

athugasemdir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum -- aðild að ESB.

[14:00]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég er ekki frá því að hv. þm. Ólöf Nordal hafi sent þessa fyrirspurn á vitlaust heimilisfang því að hún var aðallega að tala um stefnu Samfylkingarinnar, fyrrum samstarfsflokks Sjálfstæðisflokksins, í ríkisstjórn (ÓN: Nei, ég hef ...) og gerði mikið úr því hvaða afstöðu sá flokkur hefði í Evrópusambandsmálum. Nú er það að sjálfsögðu ljóst að það eru ólíkar skoðanir á Evrópusambandsmálinu milli einstakra stjórnmálaflokka. Stjórnmálaflokkar hafa mótað afstöðu sína á landsfundum eða flokksþingum og það hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð gert. Sú afstaða er ljós. Í verkefnaskrá núverandi hæstv. ríkisstjórnar segir um þetta atriði, með leyfi forseta:

„Evrópunefnd verður falið að ljúka störfum við úttekt á viðhorfum hagsmunaaðila til Evrópusambandsins. Nefndin skili skýrslu 15. mars 2009 sem hafi að geyma mat á stöðu og horfum Íslands gagnvart samstarfi við Evrópuþjóðir og framtíðarhorfum í gjaldmiðlamálum. Stjórnarflokkarnir eru sammála um að aðild að Evrópusambandinu verði aldrei ákveðin nema í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Um þetta eru stjórnarflokkarnir algerlega sammála. Afstaða okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er nokkuð ljós og kemur fram í landsfundarsamþykktum okkar. Við höfum þar komist að þeirri niðurstöðu að fleiri gallar séu við aðild að Evrópusambandinu en kostir, þó að við höfum alls ekki haldið því fram að ekki séu bæði kostir og gallar því það er það sannarlega.

Núverandi ríkisstjórn mun ekki stíga frekari skref í þessu máli enda er henni ekki ætlaður starfstími nema til kosninga í apríl. Geri ég fastlega ráð fyrir því að þetta viðfangsefni verði eitt af þeim fjölmörgu málum sem tekist verður á um í kosningabaráttunni á milli stjórnmálaflokkanna, hvort sem þeir heita Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Samfylking, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur eða eitthvað annað. Ég geri líka fastlega ráð fyrir því að Evrópumálin verði viðfangsefni á næsta kjörtímabili og að sú ríkisstjórn sem tekur við völdum að loknum kosningum muni að sjálfsögðu takast á við þau.