136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[14:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hér liggur fyrir þingsályktunartillaga, stjórnartillaga sem hæstv. utanríkisráðherra hefur mælt fyrir. Eins og kom fram í máli hans var þessi tillaga lögð fram á Alþingi fyrir jól, í desember sl., í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. Hún var þá lögð fram sem stjórnartillaga. Ekki hafði samt sem áður gefist tækifæri eða tími til þess að mæla fyrir henni þá og kemur það þess vegna í hlut núverandi hæstv. utanríkisráðherra að mæla fyrir þessari tillögu. Eins og ráðherrann lagði til og gat um í máli sínu mun hún koma til umfjöllunar í hv. utanríkismálanefnd.

Það er bara tvennt sem ég mundi nefna stuttlega í tengslum við þetta mál. Annað er reyndar — og kannski hvort tveggja — mál sem hæstv. ráðherra kom aðeins inn á í framsögu sinni. Annars vegar er um að ræða hina almennu afstöðu til hernaðarbandalaga eins og Atlantshafsbandalagsins. Við í mínum flokki, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, höfum haldið uppi þeim málflutningi að hernaðarbandalög af þeim toga sem Atlantshafsbandalagið er séu ekki til þess fallin að auka frið og öryggi og stöðugleika í heiminum. Þeim sjónarmiðum höfum við haldið til haga þegar mál af þessum toga hafa verið til umfjöllunar á vettvangi Alþingis og á vettvangi hv. utanríkismálanefndar. Við munum að sjálfsögðu einnig gera það nú.

Hitt atriðið er að sjálfsögðu mjög þýðingarmikið í þessu efni og ég ætla ekki að gera lítið úr því en það er sjálfsákvörðunarréttur þjóða. Ég tel mjög mikilvægt að þjóðir geti sjálfar tekið ákvörðun um það hvernig þær haga sínum málum. Ef þær óska sérstaklega eftir því að taka þátt í samstarfi eins og Atlantshafsbandalaginu finnst mér að það eigi að vera þeirra ákvörðun burt séð frá því hvaða afstöðu við í einstökum aðildarríkjum kunnum að hafa til bandalagsins og aðildar okkar að því. Af þeim sökum vil ég leggja áherslu á þetta.

Varðandi sjálfsákvörðunarrétt þjóða er hann í mínum huga mjög dýrmætur, ég hef haldið því fram í mörgum tilfellum. Ég leyfi mér í þessari umræðu að benda á mál sem ég hef látið mig mikið varða og kynnt mér og þekki reyndar mjög vel til en það er landsvæðið í Kákasus. Þar hafa þjóðir barist fyrir sjálfsákvörðunarrétti en því miður hefur alþjóðasamfélagið ekki tekið á þeim málefnum af skilningi á mikilvægi þess að þjóðir ráði sínum málum sjálf. Hér er ég auðvitað sérstaklega að vísa til þjóða eins og Osseta sem hafa barist fyrir sjálfsákvörðunarrétti sínum við lítinn fögnuð og skilning alþjóðasamfélagsins sem hefur meðhöndlað þá með allt öðrum hætti en til að mynda þjóðabrot og þjóðir á Balkanskaga.

Þetta er efni sem er mér mjög hugleikið og ég hef skrifað um það. Það byggist m.a. á því að ég hef farið um þetta svæði og skoðað það sérstaklega og kynnt mér það. En það er annað mál og heyrir ekki undir þá tillögu sem hér er til umfjöllunar.

Ég vildi sem sagt, virðulegi forseti, aðeins geta þessara tveggja þátta, annars vegar afstöðu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði til Atlantshafsbandalagsins, hernaðarbandalags af þessum toga, og að við tölum meira fyrir annars konar samstarfi á þessu sviði. Við bundum vonir við það þegar múrinn féll að það yrði tilefni til þess að endurskoða varnarmálin m.a. með aukinni áherslu á starf á vettvangi öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og hugsanlega aukið samstarf norrænna þjóða á sviði varnar- og öryggismála. Það kann vel að vera að sá dagur komi að slíkt geti orðið að veruleika. Hitt atriðið er síðan sjálfsákvörðunarrétturinn sem er að sjálfsögðu í höndum þeirra þjóða sem hér um ræðir, þ.e. Albaníu og Króatíu sem hafa tekið ákvörðun um að óska eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu. Ég sé ekki ástæðu til annars en að þetta mál fái skjóta meðhöndlun á vettvangi hv. utanríkismálanefndar.