136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[14:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka þeim þingmönnum stjórnmálaflokkanna sem hafa talað við þessa umræðu. Það liggur alveg ljóst fyrir að það er fullur hugur hjá þeim að greiða fyrir för þessa máls í gegnum þingið. Eins og fram kom í framsögu minni liggur nokkuð á því, af því að óskað er eftir því að á leiðtogafundi bandalagsins 3. apríl næstkomandi verði staðfestingarferlinu lokið og m.a. þarf hið íslenska Alþingi þá að hafa lokið samþykkt sinni á þeirri þingsályktunartillögu sem ég hef nú mælt fyrir í dag.

Ég sé á öllu og heyri að það eru spennandi tímar fram undan í hv. utanríkismálanefnd. Þar er kominn mikill sérfræðingur í málefnum ýmissa flókinna þjóðasamsetninga. Því miður geri ég ekki ráð fyrir að ég sem handhafi framkvæmdarvaldsins verði boðinn til þeirra funda en hugsanlega mundi hv. þingmaður og formaður utanríkismálanefndar upplýsa mig í góðu næði eða miðla af þeirri miklu þekkingu sem hann bersýnilega hefur á þessu. Sumt af því sem hann nefndi hér um málefni Abkasa og Osseta var mér ekki alveg ljóst. Ég hafði t.d. enga hugmynd um að við Íslendingar hefðum átt slíkan sérfræðing í málefnum þessara þjóða sérstaklega þá Osseta eins og kom fram í máli hv. þingmanns.

Ég held að það skipti máli líka að gera sér grein fyrir því að þær tvær þjóðir sem við erum hér að fjalla um eru vinaþjóðir Íslendinga sem við höfum bundist á síðustu árum sérstökum tengslum við og höfum áður reynt að greiða götu. Hvað Albaníu varðar er alveg ljóst að Albanar hafa sótt mikið til Íslands og sækja enn í dag varðandi þekkingu og hugsanlega aðstoð við að virkja vatnsföll í Albaníu sem mikið er af óbeisluðum.

Ég rifja það upp að hv. þm. Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fór sína síðustu opinberu för sem forsætisráðherra til Albaníu eigi alls fyrir löngu og þar kom í ljós mikill áhugi á að efla þessi tengsl við Ísland. Að því er Króatíu varðar er rétt að rifja það upp að á sínum tíma þegar Króatía varð að fullvalda ríki þá var Ísland fyrst þjóða til að veita hinni nýju þjóð opinberlega viðurkenningu sem fullvalda ríki. Ég held að við höfum orðið þar nokkrum klukkustundum á undan Þjóðverjum og síðan Evrópusambandinu sjálfu. Við höfum því á hinum síðustu tímum haft sérstök tengsl við Króata. Því miður hefur okkur ekki alltaf gengið nógu vel að vinna þá í handbolta en kannski ber nýrra við í framtíðinni. En tengslin eru fyrir hendi og við eigum að rækta þau og það erum við m.a. að gera með því að greiða götu þeirra hérna.

Ég tek svo algerlega undir það sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði áðan um hver væri frumskylda ríkisstjórna. Frumskylda ríkisstjórna, sagði hv. þingmaður, er að tryggja öryggi þjóðar sinnar og finna leiðir í viðsjárverðum heimi til þess að koma málum svo fyrir að hún búi við mest hugsanlegt öryggi. Það er vandasamt í þeim hluta heimsins sem Balkanskaginn er. Sagan sýnir það einfaldlega að þar þurfa menn stundum að taka djarfar ákvarðanir til að skjóta sér og sínum í skjól. Það er djörf ákvörðun hjá þjóðum, sérstaklega hinum fyrstu sem ákveða að feta þessa leið að tryggja með þessum hætti, þ.e. með inngöngu í Atlantshafsbandalagið, öryggi borgara sinna. Eins og menn muna urðu þær þeirra sem fóru fyrstu skrefin á þeirri braut fyrir því að stórþjóðir, sem töldu að blakað væri við áhrifum þeirra í þessum heimshluta, skökuðu að þeim skellum. Það þurfti líka kjark hjá Atlantshafsbandalaginu og þjóðunum sem mynduðu það á þeim tíma fyrir stækkunarhrinuna að opna dyr bandalagsins og veita þeim skjól, oft undir miklum kárínum þeirra sem líka telja sig stórveldi í samfélagi þjóðanna og töldu að með þessu væri með einhverjum hætti verið að hreyfa við áhrifastöðu þeirra í þessum hluta heimsins.

Þannig er heimurinn. Honum vindur fram vegna þess að til er fólk sem tekur djarfar ákvarðanir, sem betur fer oftast réttar og sem betur fer miða að því að tryggja aukinn stöðugleika og frið. Ég held að við séum að gera það með samþykkt á þessari þingsályktunartillögu. Ég tel að með henni sé stigið skref til þess að auka stöðugleikann í þessum hluta heims og þá er það gleðiefni að Íslendingar geti með sínum hætti lagt lóð á vogarskál.