136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

lögskráning sjómanna.

290. mál
[14:46]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um lögskráningu sjómanna. Frumvarpið er afrakstur heildarendurskoðunar á gildandi lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987.

Lögskráning sjómanna eins og tíðkast hefur hér allt frá árinu 1930 er einsdæmi en tilgangur hennar er fjölþættur. Í fyrsta lagi er henni ætlað að tryggja sönnun fyrir því hverjir hafi verið um borð í skipi ef það ferst. Þá er lögskráningin liður í eftirliti með því að sjómenn um borð hafi lögboðin starfsréttindi, að tryggja að lögboðin slysatrygging sé í gildi og jafnframt að fyrir liggi gögn um haffæri skips. Þá felst einnig í henni skráning á siglingatíma sjómanna og hefur siglingatíminn verið nýttur til útreiknings á skattafslætti sjómanna.

Lögskráningu sjómanna má rekja aftur til ársins 1889 í lögskráningarbálk farmannalaga. Þá framkvæmd sem þekkist í dag við lögskráningu má hins vegar rekja til laga um lögskráningu sjómanna er tóku gildi árið 1930, eins og áður sagði. Má eiginlega dást að hvílík framsýni þar hefur verið hvað þetta varðar. Efnislega hafa litlar breytingar orðið á lögunum síðan að því undanskildu að nú er við framkvæmd lögskráningar gerð krafa um að sjómenn hafi hlotið öryggisfræðslu frá Slysavarnaskóla sjómanna eða hjá öðrum viðurkenndum aðila.

Megintilgangur þessa frumvarps er að gera framkvæmd lögskráningarinnar einfaldari en áður og minnka skriffinnsku með rafrænni skráningu og er þá mjög eðlilegt að þetta frumvarp sé flutt frá ráðuneyti fjarskiptamála.

Lagt er til að skipstjórar og/eða útgerðarmenn beri ábyrgð á lögskráningunni sjálfir í gegnum lögskráningarkerfið og að þeir annist framkvæmd hennar. Fyrir þá skipstjóra eða útgerðarmenn sem ekki vilja nýta sér þann möguleika verður engu síður hægt að lögskrá með svipuðu fyrirkomulagi og áður. Í þeim tilvikum geta skipstjórar sent tilskilin gögn eða upplýsingar til stofnunar eða embættis sem eftir nánari ákvörðun samgönguráðherra sér um framkvæmdina í stað sýslumanna og tollstjóra áður.

Með notkun rafrænna skilríkja verður hægt að tryggja að upplýsingarnar stafi frá réttum aðila hverju sinni. Við framkvæmd lögskráningar verða upplýsingar frá skipstjóra eða útgerðarmanni bornar saman við upplýsingar í gagnagrunni hjá Siglingastofnun þannig að ganga megi úr skugga um að þær séu réttar, m.a. varðandi gildi skírteina, tryggingar og haffæri skips.

Í frumvarpinu er lögð til sú meginbreyting frá gildandi lögum að lögskráningin tekur nú til allra sjómanna sem starfa um borð í skipum sem skráningarskyld eru hér á landi. Í gildandi löggjöf nær skráningin til allra sjómanna sem ráðnir eru til starfa á skipum sem skráð eru hér á landi og eru 20 brúttótonn eða stærri. Fallið er frá stærðartakmörkunum enda ekki lengur taldar forsendur fyrir því að gera greinarmun á eftirliti með kröfum um tilskilin réttindi og tryggingar eftir stærð skipa.

Virðulegi forseti. Við framkvæmd lögskráningar verður ekki lengur gerð krafa um yfirlýsingu tryggingafélags og að líf- og slysatrygging sé í gildi. Þess í stað er samfara þessu frumvarpi gert ráð fyrir breytingu á lögum um eftirlit með skipum. Þar er lagt til að skip fái ekki haffærisskírteini nema í gildi sé lögboðin líf- og slysatrygging. Er sú leið farin þar sem haffærisskírteinið er á rafrænu formi og tengt gagnagrunninum um lögskráningu sjómanna. Með því að tengja yfirlýsinguna við útgáfu haffærisskírteinis þarf að ráðast í færri breytingar á lögskráningarkerfinu en ella.

Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir því að frumvarp þetta hafi í för með sér verulegar breytingar á lögskráningunni sem slíkri þar sem tilgangur hennar og markmið verða svipuð og áður.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri heldur legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.