136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

lögskráning sjómanna.

290. mál
[14:58]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Það sem er að í þessu frumvarpi er breytingin úr 12 brúttótonnum í 20 brúttótonn. Það er að mínu mati stóri gallinn við frumvarpið og ef einhvers staðar er þörf að vera með skráningu liggur hún í því að við hefðum þurft að vera með hana á smærri bátunum þar sem slysatíðnin er mest, eins og ég kom hér inn á áðan. Maður spyr sig: Af hverju er verið að leggja áherslu á að vera með skráningarskyldu á stærri skipum en ekki á smærri? Það er hlutur sem er rétt að athuga.

Á dagróðrabátum eru miklar breytingar. Ef maður veikist einn dag á að afskrá hann og það á að afskrá þann sem leysir hann af hvort sem róðurinn er 20 eða 30 tímar. Það er í rauninni mikil vinna fyrir skipstjóra að halda utan um þetta og gleyma þessu ekki því að ef hann gleymir þessu og Landhelgisgæslan kemur um borð í viðkomandi skip þar sem er einn ólögskráður eða fleiri er það auðvitað hið versta mál og lögbrot.

Ég kom líka inn á það áðan að skipstjóra er heimilt að fela útgerðarmanni að annast lögskráninguna. Það er alveg rétt. En það er oft þannig að það fer á milli skips og bryggju þannig lagað séð, skilaboðin komast ekki til skila og annað í þeim dúr og þetta gleymist. Á mörgum skipum er búin að vera rafræn lögskráning til margra ára og menn hafa sent í tölvutæku formi til skráningarstjóra upplýsingar um áhöfn sem er að fara í veiðiferð, sérstaklega á skipum sem eru lengur úti en sólarhringinn. Þá er það oftast gert þannig, hvort sem það er á togurum eða loðnuskipum eða stórum línuskipum og öðrum í þeim flokki skipa sem eru ekki í þessum svokölluðu dagróðrum.

Reglugerðarþátturinn er þáttur sem er dálítið óþolandi við alla lagagerð hérna á þinginu. Það er eins og stendur í 7. gr. um reglugerðarheimildir. Síðan vita menn ekkert hverjar þær eru eða hvernig þær verða. Ráðherra er heimilt í reglugerð að veita undanþágu frá ákvæðum laga þessara um lögskráningarskyldu áhafna tiltekinna skipa, svo sem hafnsögubáta, dráttarbáta, björgunarskipa, frístundaskipa og farþegaskipa til skoðunarferða.

Eins og ég hef sagt get ég alveg tekið undir þetta hvað varðar björgunarskip en önnur skip sé ég ekki ástæðu til að tala um í þessum flokki og alls ekki farþegaskip til skoðunarferða eða frístundaskip þar sem eru að hluta til eða jafnvel eingöngu útlendingar um borð í. Ég hef gert athugasemd við hvernig staðið er að útgerð þeirra skipa og kröfur um réttindi fyrir þá menn sem taka frístundaskip á leigu til að stunda fiskveiðar.

Síðan eru það skilríki skipstjórnarmanna og vélstjórnarmanna um borð í skipunum og eftirlitsþátturinn hvað þau varðar. Ef menn eru ekki með skírteini fá þeir sektir. Sektarákvæðin og refsiákvæðin eru allt of há. Brot gegn lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema að þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Tilraun til brota og hlutdeild í brotum á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.

Hvaða vitleysa er það að gera það að stórglæp þegar menn gleyma að skrá menn í skipshöfn? Þar er allt of langt gengið í því að refsa mönnum. Ég tala nú ekki um eins og ég benti á áðan, að skipstjóra er heimilt að fela útgerðarmanni að annast lögskráningu. Svo gerist eitthvað, það ferst fyrir að lögskrá hvort sem það er gert í tölvuskeyti eða jafnvel bara á blaðsnifsi sem breytingarnar eru skráðar á. Það þarf að vera nafn og númer á viðkomandi manni, kennitala og heimilisfang og næstu aðstandendur. Svona hlutir ganga of langt að mínu mati.

Síðast en ekki síst er skipstjórinn ábyrgur í þessu tilfelli. Varðandi öryggismálaþáttinn er verið að tala um að hafa lögskráningu á skipum til þess að vita hverjir eru á viðkomandi skipi. Þess vegna er mjög athyglisvert að hækka markið úr 12 tonnum í 20 tonn þar sem ljóst er að flest skip sem lenda í einhverjum uppákomum eru smærri bátar. Maður hefði haldið að ef einhvers staðar ætti að vera lögbundin skráningarskylda væri það á þessum litlu bátum.

Það er það sem ég geri hvað mestar athugasemdir við í þessu frumvarpi. En ég vil benda á að rafræn lögskráning hefur átt sér stað til margra ára í íslenska fiskiskipaflotanum og líka á fraktskipum.