136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[15:21]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frumvarp sem er að mínu mati mjög góð leið til að sporna við svartri atvinnustarfsemi og undanskotum frá skatti eins og fram kom hjá hæstv. fjármálaráðherra. Það er mjög gott mál að aðstoða fólk sem er í erfiðleikum með að klára húsnæði sitt eða fara í endurbætur með því að endurgreiða 100% virðisaukaskattinn.

Spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra lýtur að endurgreiðslu til einstaklinga sem hugsa sér að fara í endurbætur á húsnæði sínu. Er hér um það að ræða að fella niður allar girðingar, þ.e. að allir einstaklingar geti fengið þessar endurgreiðslur eða eru þarna einhverjar girðingar, t.d. að miðað sé við fjárhagslega stöðu fólks sem hefur hug á því að fara í endurbætur á íbúðarhúsnæði sínu og nýta sér þessi ákvæði?