136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[15:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir undirtektirnar. Það er ánægjulegt að málið fær góðar móttökur. Að sjálfsögðu er mikilvægt að framkvæmdin sé einföld. Hún er það í sjálfu sér. Þetta er vinnulaunaþátturinn. Það er ósköp einfaldlega þannig að það er mikilvægt að fólk haldi saman öllum nótum og að vinnulaunaþátturinn sé skýrt tilgreindur á hverju fylgiskjali um sig. Þetta tekur ekki til efniskostnaðar og slíkra hluta þannig að það er vinnulaunaþátturinn sem þarf að koma skýrt fram á fylgiskjölum. Menn safna þessu saman og sækja um þetta í einu lagi til skattstjóra viðkomandi umdæmis og þá fær það, að því er ég best veit, yfirleitt fljóta og góða afgreiðslu og peningana í framhaldinu, endurgreiðslufjárhæðirnar í framhaldinu inn á reikning.

Það er auðvitað hárrétt að það er mikilvægt að kynna þetta svo að fólk viti nákvæmlega að það á þennan rétt, það er mikilvægt að fylgiskjöl séu til staðar fyrir öllum útgjöldum af því tagi sem þarna koma við sögu. Það er mikilvægt að þetta verði síðan kynnt rækilega í framhaldinu þannig að fólk geti gert áætlanir, farið að láta teikna eða panta eða hvað sem það nú er sem þarf að gera til undirbúnings framkvæmdum og ráða síðan iðnaðarmenn í störf, sem þarna njóta góðs af. Ég held að það eigi ekki að vefjast neitt fyrir mönnum enda er framkvæmdin í föstum skorðum og er í gangi. Hér er verið að hækka þetta hlutfall til að gera þetta meira ívilnandi eða hvetjandi og í raun og veru engin kerfisbreyting að neinu öðru leyti.