136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[15:31]
Horfa

Ragnheiður Ólafsdóttir (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tel þetta mál mjög mikilvægt í þeirri stöðu sem þjóðfélag okkar er nú í. Þetta getur hvatt þá sem eiga einhverja fjármuni handbæra en hafa á þenslutímum undanfarinna ára ekki þorað að fara í aðgerðir til að framkvæma. Þetta getur stuðlað að því að fólk með eldra húsnæði sjái sér fært að framkvæma núna og fá niðurfelldan vaskinn 100% og að því að minni verktakar fái atvinnu, vonandi sem flestir, og ætti að hindra svartar atvinnutekjur.

Í þessu máli þarf að hafa hraðar hendur, eins og í mörgum mikilvægum málum sem liggja nú fyrir Alþingi. Atvinnuleysi er, eins og flestir vita, bölvaldur og hefur mikil áhrif á þá sem fyrir því verða, að ég tali ekki um fjölskyldur þeirra, og oft er erfitt að bæta það vegna þess að þetta er keðjuverkun. Atvinnuleysi hefur heilsufarsleg áhrif sem hefur áhrif í heilsufarsþátt þjóðarinnar og við megum ekki gleyma því að það er mikill bölvaldur. Þess vegna þarf að koma hjólum atvinnulífsins sem hraðast af stað og þó að það sé í smáum stíl eins og þessum er það þó skref í rétta átt og ég er mjög ánægð með það.