136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[15:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsögu málsins og tek undir með öðrum þingmönnum sem hafa kvatt sér hljóðs í umræðunni og lýst ánægju með að þetta mál sé komið fram. Ég er sammála þeim röksemdum sem einnig hafa verið fluttar hvað mikilvægi málsins snertir, ekki síst í ljósi þess atvinnuástands sem við horfumst nú í augu við. Það er ástæða þess að hér er gerð tillaga um bráðabirgðaákvæði, tímabundið til 1. júlí árið 2010.

Fyrr á þinginu flutti ég ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni og Katrínu Jakobsdóttur, núverandi hæstv. menntamálaráðherra, frumvarp til laga á þskj. 483 um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem fjallar efnislega um sama atriði, þ.e. að endurgreiddur virðisaukaskattur af vinnu manna á byggingarstað verði hækkaður úr 60% í 100% eins og lagt er til í þessu frumvarpi. En í frumvarpinu sem ég lagði fram var einnig að finna það efnisatriði sem hæstv. fjármálaráðherra gat um í ræðu sinni að hefði verið skoðað en fallið frá að leggja til og varðar sveitarfélögin og vinnu manna á byggingarstað vegna nýbygginga eða við endurbætur og viðhald húsnæðis í eigu sveitarfélaga.

Í máli hæstv. ráðherra kom fram að vegna samskipta og uppgjörs mála ríkis og sveitarfélaga sem væru flókin væri ekki talið heppilegt að leggja það til. Ég mundi vilja að það yrði skoðað á vettvangi hv. þingnefndar og fá þá betri skýringar eða rökstuðning fyrir afstöðu ráðuneytisins sem kann vel að vera að sé vel undirbyggð og eðlilegt að taka tillit til.

Ég vil nefna tvennt til viðbótar. Mér fannst athyglisvert það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra eftir fund með aðilum vinnumarkaðarins að hugsanlega ætti að víkka þetta gildissvið út þannig að það gæti til að mynda náð til sumarhúsa. Mér finnst það vera athyglisverð hugmynd og viðbót sem nefndin getur skoðað. En hitt atriðið, sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, varðar gildistímann sem ég vil fá betri útskýringar á vegna þess að hér er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. mars og í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Þar sem uppgjörstímabil virðisaukaskatts er tveir mánuðir vegna nýbygginga er með frumvarpinu lagt til að gildistaka miðist við upphaf næsta reglulega uppgjörstímabils, þ.e. 1. mars 2009.“

Ef lögin taka gildi 1. mars 2009 munu þau þá gilda um endurgreiðslu? Uppgjörstímabilið er eftir á og uppgjörið sem fer fram í byrjun mars er fyrir janúar og febrúar og ákvæði frumvarpsins munu ná til vinnu sem hefur farið fram í janúar og febrúar af því að það er í raun og veru uppgjörstímabilið sem vísað er til í frumvarpinu. Ef ekki, hefði þá ekki þurft að hafa gildistökuna í raun um síðustu áramót? Í lagasetningu er snúið að fara aftur í tímann þannig að ég hefði talið mikilvægt að við fengjum þetta á hreint þannig að ljóst væri hvað væri nákvæmlega átt við. Ef það er ekki ljóst af greinargerðinni sjálfri og ef hæstv. ráðherra hefur ekki svör á reiðum höndum þá er þetta atriði sem ég tel að nefndin þyrfti að fá frekari upplýsingar um frá starfsmönnum ráðuneytisins þegar hún tekur það til umfjöllunar.