136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[15:37]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður leggur tæknilega spurningu fyrir mig en ég held að hugsunin sé ekki sú að frumvarpið sé afturvirkt. Ég les þetta þannig og held að það hljóti að vera að verið sé að tala um gildistöku við upphaf næsta reglulega uppgjörstímabils. Við erum að tala um að lögin öðlist gildi á fyrsta degi næsta reglulega uppgjörstímabils, þ.e. framkvæmdin, og gildið hefst 1. mars og fyrsta tímabilið sem verður undir er mars og apríl. Ég held að augljóst sé að þau eru ekki afturvirk í þeim skilningi að þær framkvæmdir sem ráðist hefur verið í í janúar og febrúar fái 100% endurgreiðslu í staðinn fyrir 60%. Þannig skil ég þetta nú en auðvitað getur nefndin athugað þetta eins og allt annað sem henni ber að gera og rannsaka. Þetta er skilningur minn. Ég hef satt best að segja ekki leitt hugann að því að það gæti verið einhvern veginn öðruvísi.

Ef komið er að lokum þessarar umræðu vil ég segja varðandi annan þáttinn með sveitarfélögin að ég vísa til þess sem áður sagði. Það var einfaldlega talið að flókið væri að fara inn í uppgjörssamskipti ríkis og sveitarfélaga hvað varðar virðisaukaskatt sérstaklega. Þau eru allflókin og niðurstaðan varð að sá þáttur málsins var ekki tekinn með.

Varðandi tekjuáhrif á ríkissjóð er ekki talið að þau verði umtalsverð, einfaldlega vegna þess að á móti þeirri skattaendurgreiðslu, sem þetta er í eðli sínu, koma veltuskattar, auknir tekjuskattar og útsvar og væntanlega minni atvinnuleysisbætur þannig að þegar upp er staðið verða nettóáhrif þess á ríkissjóð væntanlega ekki umtalsverð. Þá mælir það enn frekar með því að í þetta verði ráðist nákvæmlega við þær aðstæður sem við stöndum nú frammi fyrir. Ástæða þess að þetta er tiltekið tímabil er sú að menn vilja sjá og meta hvernig þetta gengur og hvernig aðstæður þróast hvað varðar atvinnuástand og fleira sem skiptir máli í sambandi við það. Ég er mjög ánægður með að þetta mál, sem er ofarlega á verkefnalista ríkisstjórnarinnar, fær góðar undirtektir.