136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

279. mál
[15:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég vil af tilefni þessa máls segja að það er ánægjulegt að það virðist vera tiltölulega breið þverpólitísk samstaða um það á þingi að það eigi að skoða þarna leiðir til að koma fólki til aðstoðar, að það fái aðgang að sínum bundna séreignarsparnaði fyrr en lög og reglur hafa gert ráð fyrir þar sem miðað er við tiltekin aldursmörk. Spurningin er þá bara um útfærslu í þeim efnum og hvernig það gagnist best þeim sem þurfa á þessu að halda.

Ég vil upplýsa að frumvarp er í vinnslu á vegum ríkisstjórnarinnar um þetta mál. Það er boðað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að slíkt frumvarp muni koma fram og gerir það vonandi á næstunni.

Þar af leiðandi hefur mikil vinna verið lögð í það af hálfu fjármálaráðuneytisins undanfarna daga, og nætur liggur mér við að segja, að skoða hvaða leiðir væru vænlegastar í þessu og hverjar væru færar. Og í þeim efnum verð ég að taka undir margt af því sem hv. þm. Árni Mathiesen sagði hér varðandi þá erfiðleika sem menn kunna að rata í ef þarna er farið í aðgerð sem reynist sjóðunum um megn eða þeir ráða illa við. Þá vakna upp mörg álitamál og sum mjög snúin eins og þau hvernig eigi þá að gæta jafnræðis milli sjóðfélaga og tryggja að útgreiðslur til eins hóps verði ekki á kostnað annarra. Hvernig á að tryggja að sjóðirnir einfaldlega ráði við þær útgreiðslur miðað við það lausafé sem þeir hafa? Og þegar haft er í huga að staða þeirra hefur auðvitað verið að þyngjast á margan hátt vegna þess að eignasafnið er bundið í ýmsum ávöxtunarleiðum, bréfum og öðru sem í sumum tilvikum er um þessar mundir ekki seljanlegt en í öðrum tilvikum aðeins seljanlegt með miklum afföllum.

Það eina sem sjóðirnir hafa þá beinlínis auðveldlega laust til ráðstöfunar er það lausafé sem þeir eru með í sínum fórum. Það er takmarkað og þeim mun frekar sem álagið hefur aukist á sjóðina að undanförnu, sérstaklega vegna þeirra breytinga sem hér voru gerðar fyrir jólin og ég á býsna erfitt með að átta mig á hvernig voru hugsaðar, þ.e. að falla frá því fyrirkomulagi sem áður var að þegar menn hefðu náð 60 ára aldri ættu menn rétt á útgreiðslu séreignarsparnaðarins í jöfnum upphæðum á sjö árum en eiga nú þess í stað rétt á útgreiðslu á einni upphæð strax. Þetta hefur augljóslega strax valdið auknu álagi á sjóðina hvað varðar útgreiðslur við aðstæður sem eru mjög erfiðar af markaðsástæðum.

Yfir alla þessa hluti verður að fara mjög vandlega. Það þýðir ekki að leggja hér upp í vegferð sem siglir fljótlega í strand eða leiðir til þess að sjóðirnir verða að grípa til, mér liggur við að segja, óyndisúrræða eins og þeirra að skipta upp sjóðunum í það sem er bundið og það sem er laust eða, það sem væri enn verra, að einhverjir þeirra yrðu einfaldlega að sækja um heimild til Fjármálaeftirlitsins um að loka á útgreiðslur.

Ég hvet hv. flutningsmenn málsins undir forustu fyrrverandi fjármálaráðherra, kollega míns, að skoða mjög vandlega að þessi útfærsla sem hér er lögð til er býsna brött, svo ég taki ákaflega kurteislega til orða, a.m.k. miðað við þær upplýsingar sem ég hef undir höndum eftir rækilega skoðun þessara mála af hálfu ráðuneytisins að undanförnu og mikla fundi með vörsluaðilum lífeyrissjóða og eftir að hafa skoðað þetta mál allt á alla enda og kanta.

Það er líka spurning um ráðstöfunina, að binda hana með þeim hætti eingöngu eins og hér er gert. Það eru ýmis rök fyrir því en það eru líka önnur rök gegn því. Þetta gagnast þá ekki ýmsum sem eiga þarna bundna peninga en eru í miklum erfiðleikum af öðrum ástæðum en þeim sem leiða af skuldum með veði í íbúðarhúsnæði, öðrum veðskuldum sem þarna eru undir eða skuldum við lánastofnanir eða lífeyrissjóði. Fólk getur einfaldlega verið í miklum erfiðleikum sem stafa af öðrum ástæðum en þessum, t.d. vegna tekjufalls, að fólk hafi misst atvinnuna, afkoman sé að bresta og menn eigi einfaldlega ekki fyrir rekstri heimilanna. Spurningin er þá: Á slíkur hópur að vera þarna alveg utan við eða á að gera þetta með almennari ráðstöfun, a.m.k. að hluta til?

Ég geri ráð fyrir því að þessum spurningum hvað okkur varðar sem að ríkisstjórninni stöndum verði svarað þegar útfærsla þess frumvarps liggur fyrir og það birtist mönnum hér. Það er ríkur vilji til þess að skoða að opna þarna með yfirveguðum og ábyrgum hætti leiðir fyrir fólk til að bæta stöðu sína. Það gerir það enginn með sérstaklega glöðu geði því að helst hefðum við að sjálfsögðu viljað sjá þennan sparnað bara geymdan eins og upphaflega var hugsað.

En aðstæðurnar eru eins og þær eru. Við verðum að horfast í augu við það og það er skylt að skoða allar leiðir af þessu tagi sem komið geta fólki til góða í þeim erfiðleikum sem það er í. En þær verða að vera færar. Það þýðir ekkert að leggja hér upp með eitthvað sem mundi jafnvel sigla í strand strax á fyrstu mánuðum og gæti boðið heim þeirri alvarlegu hættu að í fyrsta lagi tækist ekki að gæta jafnræðis milli sjóðfélaga eða að þeir sem fyrstir kæmu og fengju útgreiðslur fengju þær en síðan réði kerfið ekki við að uppfylla kröfur þeirra sem kæmu aftar í röðinni. Þá væri á margan hátt verr af stað farið en heima setið. Ég vil því hafa mikla fyrirvara á því að sú leið sem hér er lögð fram tiltölulega mjög opin og án takmarkana sé fær við núverandi aðstæður í kerfinu.

Ég vildi hafa sagt þetta hér, herra forseti, þó að ég sjái að öðru leyti ekkert nema gott við það að þingmenn komi með hugmyndir um fyrirkomulag af þessu tagi. Það má allt saman skoða. Og það sem er mikilvægt í því sambandi er að það undirstrikar þverpólitískan vilja til að skoða leiðir í þessum efnum sem ég tel skylt að gera.