136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

279. mál
[16:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við erum búin að fá að sjá verkefnaskrá. Hún er svona nokkurn veginn sú sama og fyrrverandi ríkisstjórn var með þannig að það er nú ekki mikil breyting þar á. Eiginlega flestir í ríkisstjórninni hafa þurft að kyngja og taka U-beygju, 180° beygju. Samfylkingin er nú búin að gleyma Evrópusambandinu. Það er bara horfið og gleymt. Það er aldrei talað um það meir. Og Vinstri grænir eru búnir að gleyma bæði Icesave-reikningunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Nú er bara hjalað við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eins og bestu vini sína. Þetta er því U-beygju stjórn. Það er greinilegt.

En hún er náttúrlega með ágætis verkefnalista sem er verkefnalisti fyrrverandi hæstv. ríkisstjórnar. Það er gott ef hún framkvæmir það. Fyrrverandi ríkisstjórn gerði hundrað breytingar á hundrað dögum. Nú eru sem sagt liðnir tíu dagar og það eru komin fram tvö frumvörp, þ.e. greiðsluaðlögunin og séreignarsparnaðurinn, hvort tveggja frá fyrrverandi ríkisstjórn.

Gerðar voru tvær minni háttar breytingar á greiðsluaðlöguninni sem hefði vel mátt gera í nefnd og spara sér umræður hér í þinginu fram og til baka um höfundarrétt og annað slíkt sem enginn skildi. Ég held því bara að ríkisstjórnin ætti að taka það frumvarp sem liggur fyrir og gera á því einhverjar breytingar í nefndinni ef menn telja að þess þurfi og vinna þetta af viti í staðinn fyrir að vinna einhverjar pínulitlar breytingar á þessu frumvarpi í ráðuneytinu eins og verið er að gera núna. Síðan á að leggja það fram og fara aftur í gegnum umræðu o.s.frv. í staðinn fyrir að vinna í nefndum og klára þessi mál þannig að fólk geti farið að sjá þessar niðurstöður en ekki bíða endalaust eftir því að sagt sé hver hefur höfundarréttinn að viðkomandi frumvarpi þegar það verður endanlega að lögum.